131. löggjafarþing — 40. fundur,  26. nóv. 2004.

Raforkulög.

328. mál
[16:07]

Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér finnast svör hæstv. ráðherra ævinlega rýr í sambandi við eignarhald á fyrirtækjunum til framtíðar. Satt að segja botna ég ekki í því af hverju menn vilja ekki ræða málin opið. Þetta eru opinberar eignir sem hér eru til umræðu. Mér hefði fundist að liggja ætti fyrir að hverju stjórnvöld stefna varðaði þessa hluti og það fyrir löngu síðan. Auðvitað hefðu átt að vera umræður um það hér á Alþingi en það hefur ekki gerst. Hæstv. ráðherra velur sér hvað hún vill setja fram um þessi efni og við því er ekkert að gera.

Hæstv. ráðherrann sagði áðan að samkeppni væri komin á og nefndi samninga sem hafa verið gerðir um sölu á raforku frá Hitaveitu Suðurnesja og Orkuveitu Reykjavíkur til Norðuráls. Það er ekki hægt að halda því fram að þar hafi samkeppni ráðið för. Landsvirkjun var nú einfaldlega ekki fær um að uppfylla þarfir þessara fyrirtækja með þeim hraða sem til þurfti. Þannig er ekki hægt að segja að þetta sé til marks um að á sé komin samkeppni. Hins vegar verður kannski samkeppni í framtíðinni vegna þessa.

Varðandi alvörusamkeppni milli raforkuframleiðenda þá spyr ég hæstv. ráðherra aftur: Finnst henni líklegt að til verði alvörusamkeppni milli raforkuframleiðenda? Væri það líklegt til að leiða til velfarnaðar, ef það gerðist?