131. löggjafarþing — 41. fundur,  29. nóv. 2004.

Aukatekjur ríkissjóðs.

375. mál
[16:22]

fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (S) (andsvar):

Herra forseti. Aðeins út af vangaveltum hv. þingmanns, þá er það auðvitað matsatriði hverju sinni hvenær á að hækka tekjustofna og hversu mikið og hvað á að ganga langt í tekjuöflun á grundvelli tiltekinna tekjustofna. Lögin um aukatekjur ríkissjóðs, sem áður voru bara í reglugerð um aukatekjur ríkissjóðs og hækkuð samkvæmt ákvörðun fjármálaráðherra, yfirleitt milli jóla og nýárs ár hvert, þau eru ekki hreyfð neitt sérstaklega reglulega og það hefur ekki verið hróflað við flestum ákvæðum þeirra í nokkuð mörg ár, þ.e. frá 1997, áður en núverandi fjármálaráðherra tók við starfi.

Hitt er annað mál að ég tel ekkert athugavert við að breyta upphæðum eins og þeim sem hérna er um að tefla annað slagið eitthvað í takt við verðlagsþróunina, þó það sé miklu minna núna, vegna þess að við eigum að taka sjálf ákvarðanir hér á Alþingi, þingmenn, um það hversu há gjöldin eigi að vera en ekki láta tilviljanakenndar breytingar í verðlagi ráða hvernig það gerist.

Það er auðvitað þannig að við þurfum að afla ríkissjóði tekna, þó að vissulega sé svigrúm til skattalækkana þá þurfum við að halda áfram að afla ríkinu tekna og það er rétt að meiningin er að taka fyrir nokkur þingmál um það efni í dag. En það er allt í samræmi við forsendur sem hafa legið fyrir frá því 1. október um tekjuáætlun fjárlaga. Sama er að segja um þetta mál, það hefur legið fyrir síðan í haust að það er eðlilegt að afla 200 millj. kr. með breytingum varðandi aukatekjur ríkissjóðs.