131. löggjafarþing — 41. fundur,  29. nóv. 2004.

Aukatekjur ríkissjóðs.

375. mál
[16:45]

fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ábendingarnar. Það var hér eitt atriði sem hann spurði um, og kannski ekki alveg að ástæðulausu, um IX. kafla þessara laga, 15. gr., um gjöld vegna sérstakrar þjónustu starfsmanna utanríkisþjónustunnar. Hann spurði um gjaldtöku fyrir millifærslu fjármuna til og frá útlöndum.

Ég hygg að þessi ákvæði séu frá þeim tíma ættuð þegar millifærsla fjármuna var meira mál en hún er í dag. Ég held reyndar að það sé orðið sjaldgæft, jafnvel mjög sjaldgæft, að einstaklingar þurfi að leita atbeina utanríkisþjónustunnar að slíkri millifærslu. Þó kunna þess að vera dæmi og það er þá þess vegna sem lagaheimild er fyrir því að taka gjald fyrir slíka aðstoð, enda er það ekki beint hlutverk utanríkisþjónustunnar að taka slíkt viðvik af fólki sem nú orðið er mjög lítið mál fyrir hvern og einn að sinna, jafnvel í heimabanka sínum. Það má vel vera, hv. þingmaður, að það sé rétt að ákvæði sem þetta ætti jafnvel að hverfa með tímanum. Er það þá ágæt ábending til þingnefndarinnar að fara í gegnum þetta.