131. löggjafarþing — 42. fundur,  29. nóv. 2004.

Gjald af áfengi og tóbaki.

389. mál
[18:24]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Þó að ég sé mikill efahyggjumaður á ýmsa lund og þar á meðal í trúmálum þá á ég ekki í eins miklu sálarstríði varðandi afstöðu mína til þessa frumvarps og hv. þm. Lúðvík Bergvinsson. Ég tel tiltölulega einfalt að taka afstöðu til þess hvort menn vilji að áfengis- og tóbaksgjald sé uppfært miðað við verðlagsþróun og haldið í grófum dráttum óbreyttri í framkvæmd þeirri aðhaldssömu stefnu í þessum efnum sem þessi gjaldtaka er auðvitað hluti af. Við höfum verið eindregnir stuðningsmenn þess í þingflokki Vinstri grænna að hér væri framfylgt aðhaldssamri áfengisstefnu í norrænum anda og höfum vilja standa vörð um það fyrirkomulag og það gildir óbreytt.

Þetta frumvarp snýst að sjálfsögðu ekki bara um tekjuöflun til ríkissjóðs þó að tekjuáhrifin séu út af fyrir sig ljós. Það er hluti af þeirri heilbrigðisstefnu, aðhaldssömu stefnu á þessu sviði sem hér hefur verið framfylgt. Hitt er svo annað mál að hæstv. fjármálaráðherra verður kannski ekki með vinsælustu mönnum að velja sér það verklag að koma með þennan hrekk nokkurn veginn árlega í byrjun jólaföstunnar og lauma þessu í gegn í skjóli kvöldrökkurs þannig að menn vakni upp við vondan draum á morgun.

Ég get út af fyrir sig tekið undir það sem hv. síðasti ræðumaður var að velta vöngum yfir, þ.e. hvort endilega sé ástæða til þessa vinnulags. Ég held a.m.k. að ef menn færu þá einföldu leið að hafa þessa verðlagsuppfærslu árlega þannig að breytingin væri hverju sinni ekki nema sem næmi verðlagsþróun milli ára þá væri þetta ekkert sem neinn mundi kippa sér upp við og þyrfti ekki að vera með neina sérmeðhöndlun á afgreiðslu þessara tekjuforsendna fjárlagafrumvarps frekar en annars.

Varðandi áhrif þessa á verðlag og vísitölu þá liggur það út af fyrir sig fyrir úr því að sá kostur er valinn að hafa áfengi og tóbak eða gjaldtökuna af þeirri vöru inni í vísitölunni. Það er auðvitað hlutur sem oft hefur borið á góma og hv. þm. Þuríður Backman og fleiri hafa iðulega flutt tillögu um það að t.d. tóbaksverðið verði tekið út úr þeirri vísitölu sem notuð er til verðtryggingar sparifjár og lánsfjár eða að þau tengsl verði sem sagt slitin. Það er auðvitað dálítið kúnstugt varðandi gjaldtöku af þessu tagi á vöru sem svona sérstöku máli gegnir um, t.d. tóbak, að gjöld á vöruna sem beinlínis eru ætluð til að hafa neyslustýringu í för með sér og draga úr óhóflegri notkun á þessum varningi úr því að menn ganga þá ekki alla leið og banna hann, séu síðan tekin inn í þessa vísitölu eins og um hverja aðra nauðsynjavöru væri að ræða sem menn yrðu tilneyddir að kaupa. En svo er auðvitað ekki þannig að fullgild rök geta verið fyrir því að skilja þarna á milli. Vísitöluáhrifin eru sem betur fer ekki veruleg og hér er reiknað út að áætluð áhrif á vísitölu neysluverðs séu 0,08%. Það er alla vega ekki tilfinnanlegt.

Hér er enn valin sú leið sem fylgt hefur verið undanfarið að öll hækkunin kemur fram á sterkt áfengi en ekki er um hækkun á gjaldi á létt vín og bjór að ræða. Það dregur þá áfram þar í sundur og það hefur verið samstaða út af fyrir sig um þá stefnu, hygg ég, að rétt sé að breyta þessum hlutföllum þannig og færa gjaldtökuna meira yfir í sterku drykkina. Þetta hefur verið gert ítrekað á undanförnum árum. Ég er ekki að mæla gegn því að þessu sé áfram haldið nú. En það gefur þó auðvitað auga leið að einhvern tíma kemur upp sú spurning hvenær nóg sé komið. Þó menn tali mikið um að áfengi og sérstaklega létt vín og bjór séu dýr hér og það hamli mönnum í ferðaþjónustu þá sér þess ekki sérstaklega stað í því að erlendir ferðamenn fælist landið í stórum stíl því að þeim fjölgar nú sem aldrei fyrr og virðast ekki setja það sérstaklega fyrir sig, enda er ekkert einsdæmi að þessi vara sé skattlögð. Ekki þarf annað en til Noregs til að finna svipaðar upphæðir á ferðinni.

Ég vil að síðustu segja að auðvitað hefur verið vegið með ýmsum hætti að hinni norrænu aðhaldssömu stefnu í vímuefnamálum sem Norðurlöndin, a.m.k. fjögur þeirra, voru þekkt fyrir að framfylgja, þ.e. Norðurlöndin að Danmörku slepptri. Þar á meðal hefur hið háa Evrópusamband sett sig mjög upp á móti því að hér sé gjaldtaka, áfengisgjöld af því tagi sem við lýði hafa verið á Norðurlöndunum. Sömuleiðis hefur það gert athugasemdir við það fyrirkomulag á verslun með þennan varning sem Norðurlöndin hafa valið sér og hafa viðhaft í áratugi, þ.e. að vera með ríkiseinkasölu á áfengi og tóbaki. En kannski má gleðjast yfir því að það virðist hylla undir meiri samstöðu á nýjan leik meðal Norðurlandaþjóðanna um að standa að einhverju leyti vörð um áherslur sínar í þessum efnum samanber samkomulag heilbrigðisráðherra Norðurlandanna á fundi. Eins hafa forsætisráðherrar Norðurlandanna úttalað sig um þetta og það er vel. Hins vegar er ljóst að þrýstingurinn er ekkert að baki hvað varðar stöðu mála á Íslandi og í Noregi þar sem menn hafa enn varið tiltölulega há gjöld af þessu tagi þó að við séum að því leyti í annarri stöðu en Norðmenn að landamæraverslun með þennan varning er ekki af sama tagi og þar gerist.

Frú forseti. Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta meira. Eins og væntanlega er ljóst af máli mínu þá tel ég að þetta sé í sjálfu sér eðlileg uppfærsla þessara gjalda miðað við verðlagsþróun frá því að þau voru síðast hækkuð í nóvember 2002 og að því tilskildu að menn styðji það almennt að framfylgt sé áfram þeirri stefnu sem við lýði hefur verið í þessum efnum hér á landi þá hljóta þeir að vera sæmilega sáttir við það.