131. löggjafarþing — 45. fundur,  30. nóv. 2004.

Bifreiðagjöld.

377. mál
[18:03]

Jóhann Ársælsson (Sf):

Virðulegi forseti. Skattálögur geta aldrei orðið einhver nákvæm vísindi og þó menn uppfæri verðlag á sköttum á hverju ári munu slíkir skattar aldrei koma nákvæmlega jafnþungt niður. Nú er verið að tala um skatta á bifreiðaeigendur. Hverjir hafa orðið fyrir einna mestu álögum og hækkunum á verðlagi undanfarið aðrir en bifreiðaeigendur? Við höfum séð orkuverð, bensínverð og olíuverð hækka gríðarlega á undanförnum mánuðum. Ríkisstjórnin hefur tekið ákvarðanir um að hækka skatta á bifreiðaeigendur sem eiga að koma til framkvæmda á næsta ári. Samt sjá menn ástæðu til þess að bæta í. Ríkissjóður er ekki að missa af tekjum frá bifreiðaeigendum, því tekjur frá bifreiðaeigendum hafa sennilega aldrei verið hærri en núna og fyrirhugaðar skattahækkanir vegna þeirra breytinga sem verða á þungaskattinum koma auðvitað til viðbótar við önnur gjöld. Það var því í sjálfu sér aldrei nein þörf hjá ríkissjóði að hækka gjöldin núna vegna þess að hann væri að missa af einhverjum tekjum frá bifreiðaeigendum. Ég held að meiri ástæða hefði verið til þess að gera eins og gert var fyrir nokkrum árum þegar olíuverð hækkaði verulega á heimsmarkaði og orkuverð innan lands, bensín- og olíuverð, hækkaði mikið. Þá kom ríkissjóður til móts við bifreiðaeigendur með því að breyta bensíngjaldi og öðrum gjöldum á bifreiðaeigendur. Það er ekki aldeilis verið að því núna, í vonandi toppi þeirrar orkuverðshækkunar sem hefur verið kemur ríkissjóður og heimtar meira fé af bifreiðaeigendum, ekki bara í frumvarpinu heldur í álögum sem hefur verið ákveðið að komi á næsta ári.

Mér finnst að rökin sem hv. þm. Pétur H. Blöndal hefur fært fram um að færa þurfi gjöldin upp með verðlagi standist ekki í ljósi þessa. Við erum með gjöld á bifreiðaeigendur um 20 milljarða á ári. Yfirleitt eru þau rökstudd með því að þetta sé notað til að viðhalda vegum og nýframkvæmdum í vegum, en það er gríðarlegur afgangur af þeim upphæðum ár frá ári og þær upphæðir renna í ríkissjóð í annað en vegakerfið.

Hér er því að mínu viti meðvituð hækkun á álögum á bifreiðaeigendur á ferðinni. Það getur ekkert annað verið, því auðvitað hljóta menn að þurfa að leggja saman þær álögur sem ríkisstjórnin setur á hverjum tíma á bifreiðaeigendur. Við sjáum hvern daginn líða af öðrum þar sem ræddar eru hækkanir á gjöldum og sköttum í framhaldi af hinu mikla skattalækkunarfrumvarpi ríkisstjórnarinnar. Það er full ástæða til þess að velta því fyrir sér hvort næsta ár muni ekki koma út í mínus fyrir marga hvað varðar skatta. Hitt er ekki í hendi sem menn eiga að fá í skattalækkanir í framtíðinni. Það er að vísu laukrétt að einhverjir hópar munu græða á þeim skattalækkunum sem fram undan eru á komandi ári, en það eru þeir sem best eru staddir í samfélaginu en ekki hinir.

Það er líka ástæða til þess að velta því fyrir sér hvort persónuafslátturinn sem hækkaði núna hefur verið hækkaður nóg, ef þær röksemdir eiga að duga sem hv. þm. Pétur H. Blöndal lagði fram um að viðhalda ætti gjöldunum í einhvers konar jafnvægi, sem verður auðvitað aldrei hægt. Menn verða að horfa til þess hvað gerist í raun, en ekki hvað spárnar gera ráð fyrir hjá ríkisstjórninni sem aldrei standast. Þess vegna hefur persónuafslátturinn kannski einna helst úrelst með þeim hætti sem menn þekkja.

Byltingin heldur áfram að éta börnin sín. Byltingin í skattamálum ríkisstjórnarflokkanna skilar a.m.k. ekkert óskaplega miklu á næsta ári, nema til þeirra sem betur mega sín, en ríkið græðir sem aldrei fyrr. Það er nokkurn veginn ljóst og eru spár sem hafa staðist hjá ríkisstjórninni undanfarin ár og rúmlega það, að ævinlega hefur komið meira í ríkissjóð á árinu sem fram undan er en spáð hefur verið. Ég held að það sé nokkurn veginn óhætt að treysta því að það skili sér í ríkissjóð sem menn spá að komi í hann á næsta ári og líklega meira. Það þýðir að ríkið innheimtir meiri skatta af þjóðinni en áður. Menn geta svo sem fundið einhver rök fyrir því að það komi af hinum og þessum ástæðum, ekki skattahækkunum, en greinilegt er að sumt af því á að koma með skattahækkunum. Það hefur sést á þeim frumvörpum og málum sem við höfum rætt undanfarna daga.

Búið er að ákveða að hækka brennivínið og er það komið í gegnum Alþingi. Aukatekjur ríkissjóðs eiga að hækka um 10%. Það mál var rætt í gær og nú ræðum við um hækkun á bifreiðaeigendur, sérstaka hækkun ofan á þá hækkun sem var ákveðin og liggur fyrir að komi til framkvæmda á næsta ári.

Ég held að ástæða sé til þess að menn velti því fyrir sér hversu langt eigi að ganga með þessum hætti áður en menn breyta því kerfi sem notað er til þess að leggja álögur á bifreiðaeigendur. Auðvitað ættu menn að taka umhverfismálin miklu meira inn í en gert er og leggja álögur á bifreiðaeigendur í takti við það sem það kostar samfélagið að nota bílana. Það er ekki gert í dag en þarf að endurskoða álögur ríkisins með það í huga að hafa áhrif á hvernig bíla menn nota, hvernig bílarnir fara með göturnar og andrúmsloftið. Allt þetta þarf að taka inn í þá stefnu sem menn hafa hvað varðar álögur á bifreiðaeigendur. Síðan þurfa menn líka að endurskoða, að mínu viti, að láta bifreiðaeigendur greiða sérstaklega í ríkissjóð langt fram yfir það sem vegakerfið þarf á að halda. Það kann vel að vera að þegar menn endurskoða málin í heild sinni komi eitthvað annað út en ég ræði hér um, einfaldlega vegna þess að umhverfismálin hafa ekki verið skoðuð með nægilega góðum hætti fram að þessu en þurfa auðvitað að fá þá skoðun.

Mér finnst ástæða til þess að nefna þetta í umræðunni. Ég tel að rökin fyrir því að hækka gjöldin á bifreiðaeigendur séu ekki til staðar, einfaldlega vegna þess að ríkissjóður er í miklum plús gagnvart hækkunum á bifreiðaeigendur. Bifreiðaeigendur hafa ekki bara orðið fyrir miklum álögum vegna hækkana á orkuverði, heldur líka vegna hækkana á tryggingagjöldum og öðrum rekstrarkostnaði bifreiða á undanförnum árum. Fjölskyldum í samfélaginu sem þurfa að reka tvo bíla hefur fjölgað ár frá ári, einfaldlega vegna þess að bæði hjón eru á atvinnumarkaðnum og hér er ekki til almenningskerfi til þess að flytja fólk sem dugar og því þarf fólk að eiga tvo bíla.

Það er gríðarlegur útgjaldapakki sem hvert heimili í landinu greiðir vegna kaupa og rekstrar á bifreiðum. Mér finnst að ríkissjóður eigi ekki að fitna mikið á því að leggja skatta á þessa hluti. Það verða að vera betri rök fyrir því en hafa verið tínd til. Mér finnst rökin að viðhalda þurfi gjaldinu vegna verðbólgu á undanförnum árum haldlítil þegar búið er að taka ákvörðun um að hækka gjöld á bifreiðaeigendur sem eiga að koma til framkvæmda á næsta ári.