131. löggjafarþing — 45. fundur,  30. nóv. 2004.

Bifreiðagjöld.

377. mál
[18:19]

Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ef tekjur ríkissjóðs hækka um 7% á næsta ári en raunhækkun verðbólgu er 3,5%, er það raunlækkun eða raunhækkun? (PHB: En spurningin.) Mér finnst ég ekki þurfa að svara því. Auðvitað vitum við að verðbólgan rýrir krónutöluna. Þannig er það. Þurfa menn að svara svona spurningum í þingsal? (Gripið fram í.) Ég hélt því hins vegar fram að menn mættu ekki gleyma að reikna með því að þeir væru þegar búnir að hækka álögur á bifreiðaeigendur, að þeir væru búnir að ákveða hærri álögur á bifreiðaeigendur. (PHB: Allt annað mál.) Já, allt annað mál, það er bara búið að því.

Mér finnst ástæða til þess að hv. þingmenn muni eftir skattahækkunum sínum þegar þeir bæta við nýjum álögum. Bifreiðaeigendur greiða á næsta ári, ekki 350 millj. kr. í viðbót ofan á gjöldin sín heldur 470 millj. kr. samkvæmt því sem liggur fyrir í hækkunum. Hv. þingmenn reyna þá að beina umræðunni inn í það að viðhalda gjöldunum gagnvart verðbólgunni. Það hefur þeim aldrei tekist þegar um hefur verið að ræða persónuafslátt hjá einstaklingum. Þá hafa verðlagsforsendur fjárlaga verið notaðar en raunverulegar forsendur, verðlagið, hefur gleymst.