131. löggjafarþing — 47. fundur,  2. des. 2004.

Húsnæðismál.

220. mál
[15:21]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég ætla ekki að fara í karp um það í anda Framsóknarflokksins hvort hafi komið á undan, eggið eða hænan. Það er best að láta hann um þá deild enda á hann heilt landbúnaðarráðuneyti til að glíma við slík mál. Ég ætla heldur ekki að fara að gera þetta að einhverju pólitísku karpsmáli. Aðalatriðið er að a.m.k. við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði erum sannfærð um að áfram er rík þörf fyrir opinbert húsnæðislánakerfi. Það er mikilvægt að stjórnvöld hafi slíkt tæki í höndunum til að reyna að tryggja eins og kostur er að landsmönnum, hvar sem þeir búa og eftir því sem mögulegt er án tillits til efnahags, standi til boða sómasamlegt húsnæði á viðráðanlegum kjörum. Til þess hafa ráðstafanir hins opinbera í húsnæðismálum jafnan tekið. Við höfum enga trú á öðru en að hér eftir sem hingað til verði þörf fyrir slíkt opinbert húsnæðislánakerfi, og þótt meira væri en í dag. Staðreyndin er sú að núverandi ríkisstjórn lagði niður á einu bretti félagslegan hluta húsnæðislánakerfisins og það kemur að því fyrr eða síðar að taka verður upp ráðstafanir á nýjan leik undir þeim formerkjum. Aðstæður efnalítils fólks til að tryggja sér húsnæði hafa því miður ekki batnað, ef eitthvað er á köflum versnað. Hér er líka óþroskaður leigumarkaður.

Aðalatriði þessa máls er að hér er verið að taka skref í rétta átt. Það er liður í því að skjóta styrkari stoðum undir Íbúðalánasjóð og á því er full þörf þannig að hann verði ekki úti í þeim sviptingum sem nú ganga yfir og geta vel átt eftir að reynast tímabundnar. Okkur segir svo hugur að menn mundu sakna vinar í stað þar sem er Íbúðalánasjóður ef gengið yrði af honum dauðum á þessum missirum. Það er fagnaðarefni að hér er að nást þverpólitísk samstaða um að gera ráðstafanir sem tvímælalaust eru í rétta átt og til bóta fyrir Íbúðalánasjóð.