131. löggjafarþing — 47. fundur,  2. des. 2004.

Húsnæðismál.

220. mál
[15:23]

Birkir Jón Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Hér er verið að leiða í lög eina mestu kjarabót íslensks almennings á seinni árum og jafnframt er verið að leiða í lög eitt stærsta kosningaloforð Framsóknarflokksins fyrir síðustu kosningar. Hér eru tryggðir hagsmunir allra landsmanna óháð búsetu, aðgangur að lánsfjármagni hvort sem fólk býr á landsbyggðinni eða höfuðborgarsvæðinu.

Hæstv. forseti. Það má áætla að á nokkrum mánuðum, allt frá því að Íbúðalánasjóður hóf að lækka vexti sína, hafi vextir til almennings í landinu lækkað um 1% og ef haft er í huga að skuldir heimilanna eru á bilinu 800–900 milljarðar skilar 1% lækkun 8–9 milljörðum lægri vaxtagjöldum fyrir heimilin í landinu. Hér er því um mjög mikla kjarabót að ræða og ég vil af þessu tilefni óska íslenskum heimilum til hamingju með 90% húsnæðislánin.