131. löggjafarþing — 47. fundur,  2. des. 2004.

Rannsóknir og nýting á jarðrænum auðlindum.

374. mál
[18:03]

iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er um það ákvæði að segja að ef um jafngóðar umsóknir er að ræða ræður það hvor kom á undan ef um rannsóknarleyfi er að ræða. Ég veit ekki hvort rétt er að kalla þetta einhverja fegurðarsamkeppni, þetta er svona og ég veit ekki hvernig það ætti að vera öðruvísi. Það eru leiðbeinandi reglur í greinargerðinni um það hvernig þetta skuli gert.

Hv. þingmaður Samfylkingarinnar Mörður Árnason — það er kannski ekki sanngjarnt að nefna það hér en hann er engu að síður þingmaður Samfylkingarinnar líka — gerði nokkuð mikið úr því að verið væri að reyna að færa eignarréttinn til einstaklinganna og það væri almennt stefna stjórnvalda. Hins vegar komu upp allt önnur sjónarmið af hálfu Samfylkingarinnar, fannst mér, í tengslum við þjóðlenduumræðuna eins og hér á Suðurlandi þar sem ríkið, þ.e. Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur, þótti ganga of nærri einkaréttinum. Þá var allt annað upp á teningnum hjá hv. þingmönnum Samfylkingarinnar. Þá stóðu þeir með einstaklingunum, með bændunum, um það að verja rétt þeirra. Það er stundum svolítið erfitt að átta sig á hlutunum.