131. löggjafarþing — 48. fundur,  3. des. 2004.

Rannsóknir og nýting á jarðrænum auðlindum.

374. mál
[10:37]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Það er að sönnu rétt hjá forseta enda skeikast honum ekki, reyndum manninum í slíku, að það er Alþingi sem ákveður hvernig það skipar hér verkum og hvert það sendir þingmál til umfjöllunar. Ég treysti því að sjálfsögðu að hv. iðnaðarnefnd muni leita álits umhverfisnefndar. Það er sjálfsagður hlutur og fyrir því eru öll rök en hitt verður að segjast að tilraunir hæstv. iðnaðarráðherra til að ýta því algerlega út af borðinu og til hliðar að þetta mál hafi nokkra skírskotun eða tengingu til umhverfisverndar eða umhverfismála eru ónotalegar. Það er eðlilegt að menn verði tortryggnir í garð málsins þegar hæstv. ráðherra gengur fram og talar fyrir því og um það eins og hún gerir. Hún kemur með þessar rullur hér um að þetta sé verkaskiptingin í Stjórnarráðinu, þetta sé nýtingarmál og komi umhverfismálum ekkert við og þá er eðlilegt að menn verði tortryggnir. Það er enn þá meiri ástæða til þess að umhverfisnefnd fái þetta mál til umfjöllunar í ljósi þess hvernig hæstv. ráðherra talar.