131. löggjafarþing — 48. fundur,  3. des. 2004.

Hrun veiðistofna skelfisks og innfjarðarækju.

[13:51]

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég fagna þeim ríka skilningi sem fram kom í svörum hæstv. sjávarútvegsráðherra á þeim vanda sem við er að etja.

Það er ljóst að geysilegt hrun hefur orðið og mikill skaði er skeður í þeim byggðum sem búa næst rækju- og hörpudisksmiðunum. Það er óhjákvæmilegt að bregðast við því og með aflabótum hefur verið reynt að koma til móts við byggðirnar og atvinnulífið þar.

Ég tel fá dæmi um annan eins skell og orðið hefur í tengslum við aflabrest í rækju og skel. Talið er að 70% af tekjum af sjávarútvegi í Stykkishólmi vegna skelveiðanna hverfi á einu ári og má nærri geta að það komi við byggðina þegar slíkur brestur verður. Það er augljóst að við þessu þarf að bregðast og við þessu hefur verið brugðist með þeim hætti sem sjávarútvegsráðherra hefur gert, með því að úthluta aflabótum. Það er ástæða til þess að undirstrika það.

Það sem er hins vegar athyglisvert í þessu öllu er að ekkert bendir til þess að um ofveiði sé að ræða. Þess vegna er svo mikilvægt, eins og fram kom í ræðu hv. málshefjanda, að rannsóknir verði auknar og allra leiða leitað til þess að greina ástæður fyrir þessu hruni. Innfjarðarrækjan hefur nánast algjörlega verið veidd eins og tillögur fiskifræðinga hafa hljóðað upp á, upp á kíló. En þrátt fyrir það verður þessi brestur. Talið er að smáfiskur, þorskur og ýsa, gangi í rækjuna. Það þarf að líta á þessa hluti mjög rækilega bæði hvað varðar rækjuna og skelina (Forseti hringir.) og er algerlega óhjákvæmilegt að taka tillit til þess gagnvart þeim byggðum sem um er að ræða.