131. löggjafarþing — 48. fundur,  3. des. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[14:54]

Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta er alveg hárrétt hjá hv. þingmanni, það er akkúrat það sem ríkisstjórnin hefur verið að gera á undanförnum árum, hún hefur verið að hækka skattbyrðina á þeim sem lægst hafa launin. Fjármálaráðherra hefur sagt það sjálfur að skattgreiðendum hafi fjölgað mikið hér á landi. Hvernig fjölgaði þeim öðruvísi en að nú eru miklu fleiri með lág laun sem greiða skatt? Ætlar hv. þingmaður að bera á móti því að það séu um 30 þúsund Íslendingar sem greiða tekjuskatt af tekjum undir 100 þús. kr. á mánuði? Þegar persónuafsláttur var lækkaður þá var hann lækkaður í krónutölu. Ef við ætlum að hækka hann aftur, ætli við þurfum þá ekki að hækka hann í krónutölu?

Ég átta mig alls ekki á hvað hv. þingmaður er að fara. Ég hef ekki haldið því fram að allt tekjuskattskerfið þyrfti að vera í krónutöluútfærslu. Ég hef einfaldlega bent á að þær útfærslur sem ríkisstjórnin leggur upp með núna sem áherslur sínar, þær væru rangar að mati okkar í Frjálslynda flokknum og það væri ekki rétt að fara þá áhersluleið sem núna er farin með því annars vegar að fella niður hátekjuskattinn og hins vegar að setja flata prósentulækkun á í skattkerfinu. Það væri hægt að ná meiri jöfnuði, og væri æskilegt að gera það við núverandi aðstæður, með því að hækka persónuafsláttinn og hækka frítekjumarkið.

Ég held varla að hv. þingmaður mótmæli því að þegar persónuafslátturinn lækkaði, þá lækkaði hann í krónutölu. Við hljótum þá að fá að hækka aftur í krónutölu. Varla greinir okkur á um það.

Ef á að fara að tala almennt um útfærslur í skattkerfi, þá er þar fjöldamargt sem ég tel að þyrfti að skoða. Til dæmis hafna ég því alls ekki sem Alþýðusambandið hefur sett fram, að skoða hvort fleiri en eitt þrep eigi að vera í tekjuskattskerfinu. Mér finnst alveg fyllilega koma til greina að skoða það.

Mér finnst líka fyllilega koma til greina að skoða það að einstaklingar sem ekki eru atvinnurekendur megi draga frá tekjum áður en skattlagt er, t.d. ferðakostnað við að fara til og frá vinnu. Það er fjöldamargt annað sem ég mundi vilja skoða í skattkerfinu, hæstv. forseti.