131. löggjafarþing — 48. fundur,  3. des. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[14:56]

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson spurðist fyrir um áform hvað varðar frestun framkvæmda í samgöngumálum í samræmi við fjárlagafrumvarpið.

Það er rétt að minna á að þegar samgönguáætlunin sem er í gildi var undirbúin, þá var ekki á vísan að róa með allar þær stórkostlegu miklu framkvæmdir sem nú eru komnar í gang á sviði uppbyggingar orkufreks iðnaðar og álversframkvæmda.

Nú er það hins vegar veruleiki að feiknarlega miklar framkvæmdir eru í landinu og við verðum að taka tillit til þess. Þess vegna var tekin ákvörðun um að draga seglin ögn saman og gera ráð fyrir að minnka framkvæmdir í samgöngumálum, eins og hv. þingmenn vita vel um.

Ég hef verið svo heppinn sem samgönguráðherra að hafa haft úr meiri fjármunum að spila en áður hefur verið í uppbyggingu samgöngukerfisins. Það er því af mörgu að taka.

Það liggur hins vegar fyrir að við þurfum að hægja á, við höfum gert það á þessu ári eins og þingmenn þekkja og munum gera það á næsta ári sem nemur 1,9 milljörðum kr. Ég hef lýst því áður hér úr ræðustól að gert er ráð fyrir frestun framkvæmda vegna jarðgangagerðar í Héðinsfirði verði langstærsti parturinn.

Að öðru leyti verður tekin afstaða til þess og tilögur lagðar fram við endurskoðun á samgönguáætluninni sem fer fram í vetur. Þá munu liggja fyrir tillögur um nýja samgönguáætlun, sem byggja á fjárlögum hvað varðar næsta ár og hv. þingmenn munu fá tækifæri til að fjalla um þær í byrjun þess árs.