131. löggjafarþing — 48. fundur,  3. des. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[15:03]

Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Já, ég geri nú ráð fyrir því að við séum að reyna að fást við þessi fjárlög sem við erum að ræða almennt. Okkur greinir ekki mikið á um að það sé það sem við erum að tala um svona í heildina tekið. En svo vill til að í þessum fjárlögum er fullt af fjárveitingum og fjárlögin í heild sinni byggjast á uppsöfnuðum fjárveitingum í allar áttir. En af því að menn hafa valið þann kúrsinn að taka niður verklegar framkvæmdir í vegakerfinu sem ég álít að séu einar arðbærustu framkvæmdir sem við getum verið í þá spyr ég sérstaklega að því hvernig menn finna það út að það sé best fyrir framtíð okkar að skera niður þar frekar en annars staðar.

Þegar minnst er á bankana í þessu sambandi og að bankarnir séu að vara við þenslunni þá kasta menn náttúrlega steinum úr glerhúsi í því sambandi. Engir standa í jafnmiklum lánveitingum, deilandi fé út í þjóðfélagið, og bankakerfið nú til dags. Það var auðvitað að vonum að þeir töluðu sérstaklega um að menn þyrftu að beita aðhaldi.