131. löggjafarþing — 48. fundur,  3. des. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[15:41]

Jón Gunnarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson fjallaði hér af mikilli þekkingu um fjárlögin og sagði að rauði þráðurinn á þessu ári hefði verið að halda samneyslunni innan við 2% aukningu, að það hefði tekist en verið mikið verk og erfitt.

Því langar mig að spyrja hv. þingmann: Hvað gerist ef spá Seðlabankans um að samneyslan aukist um 3,1% á árinu 2005 gengur eftir, þ.e. ef aukning hennar verður rúmlega 50% meiri en ríkisstjórnin gerir ráð fyrir í frumvarpi sínu?

Þingmaðurinn fór mikinn og sagði 10 milljarða kr. afgang af fjárlagafrumvarpinu og var nánast jafnhrifinn og annar þingmaður var, hv. þm. Pétur H. Blöndal, yfir skattafrumvarpi. Seðlabankinn segir að afgangur á fjárlögum þyrfti við núverandi aðstæður helst að vera 3–4% af landframleiðslu, 30 milljarðar kr. Er þingmaðurinn sammála því?