131. löggjafarþing — 49. fundur,  4. des. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[11:07]

Jón Bjarnason (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Fjárlög fyrir árið 2005 koma hér til lokaafgreiðslu. Hér eru vissulega mörkuð nokkur tímamót í sögu þessarar ríkisstjórnar, nú skal keyra hart á skattalækkanir, skattalækkanir til þess fólks sem hefur hæstar tekjur. Nú skal svo virkilega keyra á þann þáttinn en lágtekjufólk skal bera aukinn hlut í skattheimtu ríkisins.

Sveitarfélögin standa frammi fyrir miklum fjárhagslegum vanda. Við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði leggjum til að ef svigrúm er hjá ríkisstjórninni nú til 1% skattalækkunar geti sú skattalækkun færst til sveitarfélaganna og styrkt tekjustofna þeirra.

Ég lít á það sem hinn alvarlegasta hlut hér við fjárlagaafgreiðsluna að skilja stöðu sveitarfélaganna eftir svo fjárhagslega veika sem raun ber vitni. Skattalækkunum er mætt með því að skera niður í samgönguáætlun. Reyndar liggur sá niðurskurður ekki sundurgreindur fyrir þinginu og því mótmæli ég. Þeim er mætt með því að hækka innritunargjöld í ríkisháskólunum, með því að auka gjöld á sjúklinga sem þurfa að sækja heilbrigðisstofnanir með hækkun á komugjöldum. Þetta er það fólk sem ríkisstjórnin telur að geti lagt inn í þjóðarbúið og mætt þeim skattalækkunum sem keyrðar eru fram. Staða efnahagsmála er annars svo að aðaltekjustofn ríkisins á næstu árum virðist eiga að vera skattar á viðskiptahallann.

Seðlabankinn gaf út mjög sterka aðvörun í fyrradag um hvert stefndi í þróun efnahagsmála, hækkaði stýrivexti þannig að þeir eru komnir upp í 8,25%, stýrivextir sem koma fyrst og fremst niður á lánum til einstaklinga og minni fyrirtækja hér á landi. Um 30% af því fjármagni sem í umferð er verður snert af þessari hækkun stýrivaxta. Gengisvísitalan er komin niður í 115. Gengið er út frá því í fjárlagaforsendum að hún sé 125. Ruðningsáhrif svona mikillar breytingar á genginu geta orðið gríðarleg og atvinnulífið, sérstaklega útflutningsgreinarnar úti um land, mun standa frammi fyrir miklum vanda fari fram sem horfir, herra forseti.

Þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs flytja hér tillögur sem eru til bóta og rétta að nokkru af veikan hluta fjárlagafrumvarpsins en að öðru leyti sitjum við hjá við tillögur ríkisstjórnarinnar.