131. löggjafarþing — 49. fundur,  4. des. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[11:10]

Magnús Stefánsson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Frumvarp til fjárlaga ársins 2005 kemur nú til lokaafgreiðslu á Alþingi. Í frumvarpinu birtist sterk og góð staða ríkissjóðs. Fram undan er aukinn hagvöxtur og aukinn kaupmáttur almennings. Frumvarpið felur m.a. í sér lækkun tekjuskatts launafólks, verulega aukin framlög til velferðarmála en jafnframt ákveðið aðhald í ríkisútgjöldum. Niðurstaða frumvarpsins er góður tekjuafgangur upp á um 10 milljarða kr. sem er mun betri útkoma en þekkist í flestum samanburðarlanda okkar. Á heildina litið er því um gott frumvarp að ræða með góðri heildarútkomu.

Herra forseti. Fram undan er að halda uppi aðhaldi í ríkisútgjöldum, auka aga í ríkisrekstrinum og að framkvæmd fjárlaga verði eins og lagt er upp með. Það eru mikilvæg verkefni í þágu framtíðarhagsmuna þjóðarinnar og tryggir framhald á góðum árangri stjórnarflokkanna í ríkisfjármálum.