131. löggjafarþing — 49. fundur,  4. des. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[11:42]

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Með því að taka Mannréttindaskrifstofu Íslands út af fjárlögum er gengið verulega að sjálfstæði skrifstofunnar og ekki hægt að kalla það öðrum nöfnum en að hér sé um að ræða aðför að sjálfstæði Mannréttindaskrifstofu Íslands. Er sérstök ástæða til þess við þessa atkvæðagreiðslu að lýsa eftir skýrri afstöðu Framsóknarflokksins, sérstaklega með tilliti til þess minnisblaðs sem þáverandi hæstv. utanríkisráðherra, núverandi hæstv. forsætisráðherra, skrifaði ríkisstjórn Íslands árið 1997, svo og þeirrar yfirlýsingar sem fram kom frá hv. þm. Jónínu Bjartmarz í þætti í Ríkisútvarpinu á sunnudaginn var, fyrir sex dögum.

Þó að þingmaðurinn sé því miður ekki stödd hér í dag til að svara fyrir það hljóta aðrir þingmenn Framsóknarflokksins að geta hlaupið í skarðið og gert grein fyrir stefnu flokksins í þessu máli. Ætlar Framsóknarflokkurinn að taka þátt í aðför Sjálfstæðisflokksins að Mannréttindaskrifstofu Íslands? Ég segi já við breytingartillögunni.