131. löggjafarþing — 49. fundur,  4. des. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[11:49]

Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Það er ástæða til að leiðrétta varaformann fjárlaganefndar, hv. þm. Einar Odd Kristjánsson, (Gripið fram í.) (Gripið fram í: Atkvæðaskýring.) (Gripið fram í.) varðandi … Herra forseti. Menn hafa hér í frammi nokkra sýndarmennsku en fjárveiting til Mannréttindaskrifstofu Íslands er felld niður af fjárlögum. Fjárveitingin hefur verið sérstakur liður á fjárlögum til þessa. Nú er hún færð undir sérstakan lið sem heitir Mannréttindamál og heyrir undir ákveðinn ráðherra.

Mannréttindaskrifstofa Íslands verður að sækja þar um vilji hún gera það ásamt öðrum aðilum sem gætu viljað sækja um fjármagn vegna mannréttindamála. Það er því veruleg grundvallarbreyting á stjórnsýslulegri stöðu Mannréttindaskrifstofu Íslands. Ég er andvígur þessari breytingu. Með því er verið að skerða stöðu mannréttindamála hér á Íslandi, þátt okkar í mannréttindamálum úti um allan heim. Ég segi því já, herra forseti, og hef enga sýndarmennsku í því.