131. löggjafarþing — 49. fundur,  4. des. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[12:13]

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil í þessu sambandi aðeins vekja athygli á því að í þessari tillögu er m.a. verið að tala um að lækka sérfræðikostnað A-hluta stofnana um 1.300 millj. kr. Í svari við fyrirspurn hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur liggur fyrir sundurliðun á þessu.

Ég vil vekja aðeins athygli á því hverjir eru stærstu liðirnir í þessu sambandi. Það eru m.a. Háskóli Íslands, Landspítali – háskólasjúkrahús, Vegagerðin til að hægt sé að undirbúa vegaframkvæmdir, opinber réttaraðstoð og málskostnaður í opinberum málum. Samkvæmt svarinu nam þessi sérfræðikostnaður um 4 milljörðum kr. á árinu 2002. Hér er verið að leggja til niðurskurð upp á 1.300 millj. Hér er auðvitað augljóslega um að ræða niðurskurðartillögur sem mundu bitna sérstaklega á þessum aðilum. Ég segi því nei.