131. löggjafarþing — 51. fundur,  7. des. 2004.

Afnám laga um Tækniháskóla Íslands.

398. mál
[14:37]

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Vissulega er það rétt að sameining skóla á háskólastigi getur skapað mörg tækifæri og öflugra nám, en að því kem ég á eftir, og er lykilatriði að vel sé á málum haldið.

Það var tvennt sem ég vildi spyrja hæstv. ráðherra út í núna í andsvari við ræðu hennar. Annað lýtur að eignarhaldinu en hér er um að ræða einkaeignarhlutafélag, hlutafélagsform sem er fordæmalaust í háskólarekstri hér og eins og komið hefur fram til að mynda hjá hv. þm. Einari Má Sigurðarsyni nánast fordæmalaust rekstrarform skóla í hinum vestræna heimi utan örfárra dæma frá Bandaríkjunum. Því vil ég spyrja hæstv. ráðherra: Af hverju er það form valið? Hverju er ætlað að ná fram með því formi þar sem það er fyrst og fremst valið til að ná fram arðsemissjónarmiðum og hvort hún telji ekki að formið geti leitt til þess að ekki verði um að ræða nægan faglegan og rekstrarlegan aðskilnað, þannig að akademískt frelsi hins nýja væntanlega skóla, ef þetta verður samþykkt, sé í hættu?

Hitt sem ég vildi spyrja hæstv. ráðherra um lýtur að skólagjöldum. Fyrirhugað er að innheimta skólagjöld af öllu námi í hinum nýja háskóla og þar af leiðandi einnig af tæknifræðináminu, að sjálfsögðu. Þar með er tæknifræðinámið tekið út úr öðru námi á háskólastigi á Íslandi þar sem ekki gefst kostur á að stunda það nema gegn verulegum skólagjöldum í einkareknum skóla. Það gefst ekki kostur á því að stunda tæknifræðinám gegn lægri gjöldum eins og í ríkisreknu háskólunum þannig að þar er það nám tekið út úr. Hefði ekki verið eðlilegra að mati hæstv. ráðherra að búa svo um hnútana að fram fari heildstæð umræða um allt grunnnám á háskólastigi, en ekki væri svo að farið að tæknifræðinámið væri tekið út úr og þar með ranglega að staðið, að mínu mati?