131. löggjafarþing — 51. fundur,  7. des. 2004.

Afnám laga um Tækniháskóla Íslands.

398. mál
[17:17]

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég tók eftir því að hv. þingmaður mótmælti ekki þeim sjónarmiðum sem ég las upp úr plaggi Samfylkingarinnar varðandi stefnu flokksins í menntamálum. Ég lít því þannig á að hann sé fylgjandi töku skólagjalda á háskólastigi eins og félagar hans, hv. þingmenn Bryndís Hlöðversdóttir og Ásta R. Jóhannesdóttir, virðast vera og ég óska honum til hamingju með það. Af því að ég veit að hv. þingmaður er ungur að árum get ég upplýst hann um það að honum standa allir vegir færir að ganga til liðs við Heimdall, Félag ungra sjálfstæðismanna í Reykjavík. (BjörgvS: Hvar eru mörkin?) Mörkin eru við 35 ára aldur og menn sem eru þeirrar skoðunar sem hér hefur verið lýst eiga heima í því félagi og ég óska þingmanninum velfarnaðar í starfi fyrir félagið og býð hann velkominn.

Ég óttast ekki að það verði flótti tækni- og verkfræðinema til Norðurlanda ef tekin verða upp skólagjöld við hinn nýja háskóla. Ég tel að það muni ekki gerast, ekki frekar en þegar Háskólinn í Reykjavík var stofnaður og tekin voru upp skólagjöld þar í viðskiptafræðinámi.

Varðandi heimildir ríkisháskólanna til að taka upp skólagjöld höfum við sjálfstæðismenn alltaf sagt að yfirstjórn háskólans verður að ákveða hvort hún telji nauðsynlegt að taka upp skólagjöld vegna reksturs síns. Það eru ekki við stjórnmálamennirnir sem eigum að gera það, það eru stjórnendur skólanna. (Gripið fram í.) Það hefur ekkert breyst. Þetta er skoðun mín og hún er alveg skýr.