131. löggjafarþing — 51. fundur,  7. des. 2004.

Afnám laga um Tækniháskóla Íslands.

398. mál
[17:18]

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Svar hv. þingmanns kom mér á óvart því hann er frekar opinskár um hægri sinnuðu skoðanir sínar, var það alla vega á árum fyrr og yfirleitt enn þá. Ég var að spyrja hann um viðhorf hans, ekki hvað hann teldi að stjórnvöld ættu að telja og eitthvað slíkt. Eiga ríkisháskólarnir að fá heimild til að innheimta skólagjöld til jafns við sjálfstæðu eða einkareknu skólana? Er hann ósammála hæstv. ráðherra sem segir að alls ekki komi til greina að heimila eigi ríkisreknu háskólunum að innheimta skólagjöld á grunnnám?

Þarna virðist vera einhver meiningarmunur. Þingmaðurinn hlýtur að hafa þá skoðun enn þá sem hann hefur viðrað í sjónvarpsþáttum árum saman, og er tíður gestur þar sem betur fer, enda gaman að hlusta á hann af því að hann er svo afdráttarlaus í skoðunum en hér fer hann undan í flæmingi. Telur hann að heimila eigi skólunum þetta? Ég skal svara fyrir mitt leyti af því að hann var að þýfga mig um frekari svör. Ég tel að það eigi ekki að heimila þeim að innheimta skólagjöld á grunnnám að svo komnu máli svo það sé alveg á hreinu. Hins vegar hef ég sagt að vel komi til greina að ákveðnum skilyrðum uppfylltum að innheimta skólagjöld á ákveðið nám á framhaldsstigi. Menn noti hófleg staðfestingargjöld o.s.frv. Fyrst og fremst á eftir að taka þessa umræðu.

Sjálfstæðisflokkurinn er á harðaflótta í málinu. Hann gerir ekki eins og framtíðarhópur Samfylkingarinnar sem tekur opinskáa umræðu um kosti, galla og möguleika málsins, heldur reynir Sjálfstæðisflokkurinn að lauma því inn bakdyramegin að skólagjöld verði innheimt í ríkisháskólunum og ef ekki vill verða betur, þá með því að leggja þá niður og sameina öðrum. Þess vegna spyr ég hv. þingmann um pólitísk viðhorf hans, burtséð frá öllu öðru, hvort ríkisháskólarnir eigi ekki að reka sig að miklu meira leyti með skólagjöldum innheimtum af nemendum.