131. löggjafarþing — 51. fundur,  7. des. 2004.

Afnám laga um Tækniháskóla Íslands.

398. mál
[17:27]

Einar Már Sigurðarson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er óþarfi fyrir hv. þingmann að æsa sig svona mikið yfir málinu. Það er eðlilegt að hv. þingmaður kannist ekki við þannig vinnubrögð að menn leggi fram ýmsar hugmyndir, ræði þær og móti svo stefnu á grundvelli þeirra. Hjá okkur samþykkir landsfundur stefnuna og eins og hv. þingmaður las er framtíðarhópurinn að móta tillögur sem fara í eðlilegt ferli, en ég skil vel að hv. þingmaður kannist ekki við það því að einhver önnur vinnubrögð eru stunduð þar sem hann sinnir pólitískum störfum sínum.

Hv. þingmaður lýsti því yfir að við værum líklega sammála um ýmislegt í málinu. Ég vona að það sé rétt, en skil þá ekki hvers vegna stendur á því að Sjálfstæðisflokkurinn og ráðherrar hans skuli ekki geta komið hreint fram í því að ræða málin heildstætt. Ég var að lýsa eftir því að menn færu yfir umræðuna þannig að allt væri lagt á borðið, en ekki væri stöðugt verið að reyna að lauma hlutum inn, með misjöfnum árangri að vísu og með mismunandi aðferðum, mismunandi feluleik en markmiðið virðist ætíð vera að koma skólagjöldunum inn.

Ég get endurtekið það fyrir hv. þingmann sem ég vona þó að muni ekki skapa okkur slíkan æsing að hann fari að minna okkur á hv. þm. Pétur H. Blöndal þegar hann lýsti yfir miklum æsingi sínum vegna skattafrumvarpa hæstv. fjármálaráðherra, þá get ég endurtekið það fyrir hv. þingmann að ég tel að umræðan sé mjög þörf og að fara þurfi yfir hana alla í samhengi. Ég er algerlega andvígur því að slíta málið úr samhengi og gera þetta á þann hátt sem hér er t.d. verið að gera og verður væntanlega rætt betur á næstu dögum varðandi skólagjöldin í hinum opinberu háskólum.

Ég vona að hv. þingmaður komi í lokaandsvari sínu og lýsi því yfir hreint og klárt hvort það sé einhver misskilningur hjá mér að stefna Sjálfstæðisflokksins sé sú að lauma inn skólagjöldum í háskólum og hann sé á móti heildstæðri umræðu um það hvort skólagjöld eiga við eða ekki og hvernig tryggja megi jafnrétti til náms á háskólastigi, hvort sem það er gert með skólagjöldum eða á einhvern annan hátt.