131. löggjafarþing — 51. fundur,  7. des. 2004.

Afnám laga um Tækniháskóla Íslands.

398. mál
[18:10]

Einar Már Sigurðarson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hæstv. ráðherra heldur áfram að drepa málinu á dreif. Það verður bara að hafa það. Ég hef áður tekið það sérstaklega fram að ég fagni því að það sé samstarf við atvinnulífið varðandi rekstur háskóla og mætti vera við fleiri skóla. Ég tek því þessa sneið ekki til mín. Ég fagna því ef tekst að efla tækninám í landinu. Ég lít hins vegar ekki á það sem neitt aukaatriði hvaða rekstrarform er á háskólanum. Ég lít á það sem gífurlega stórt atriði og við höfum farið yfir það í umræðunni að hugsanlega er verið að stíga nýtt skref inn í þennan heim.

Ég endurtek enn á ný að það virðist enn einu sinni verið að lauma skólagjöldum á háskólastigið án þess að við förum heildstætt yfir málið.

Þau orð sem hæstv. menntamálaráðherra nefndi varðandi listnám er enn einn rökstuðningurinn fyrir því að við skoðum málið heildstætt. Það er rétt hjá hæstv. ráðherra, þar eru skólagjöld. Verið er að fjölga þeim skólum þar sem skólagjöld eru og þess vegna er algjörlega nauðsynlegt að við nálgumst umræðuna heildstætt og hættum að lauma þessu inn bakdyramegin eftir alls konar krókaleiðum.