131. löggjafarþing — 53. fundur,  8. des. 2004.

Samgöngur til Vestmannaeyja eftir 1. des. 2004.

[13:31]

Hjálmar Árnason (F):

Frú forseti. Ég leyfi mér að gera að sérstöku umtalsefni samgöngur við Vestmannaeyjar í ljósi þess að strandsiglingum hefur nú verið hætt frá 1. desember sl. Flutningar til og frá öðrum byggðarlögum hafa færst á þjóðvegina með tilheyrandi kostnaði fyrir samfélagið og álagi á vegakerfið í heild sinni. Sérstaða Vestmanneyinga er hins vegar sú að flutningar þeirra verða einfaldlega ekki færðir á þjóðvegina, a.m.k. ekki enn þá. Í athugun er framtíðarlausn í þeim efnum en slíkar lausnir munu ekki verða að veruleika á næstu árum og því er brýnt að finna úrræði er þjóna yfir 4 þús. manna samfélagi.

Frú forseti. Staðan er einfaldlega þessi: Samgöngur við Vestmannaeyjar eru annaðhvort flugleiðis eða með Herjólfi. Um aðrar leiðir er ekki að tefla. Hver er staðan? Ef við lítum fyrst á flugið hefur komið í ljós að það fellur iðulega niður svo að ljóst má vera að sú leið er ekki nándar nærri alltaf örugg. Árið 2000 féll flug þannig niður 35 heila daga þar sem báðar ferðir féllu niður og 78 daga féll flugið niður aðra leiðina, þ.e. u.þ.b. 20% áætlaðra flugferða féllu niður. Árið 2001 voru það 36 heilir dagar sem féllu niður og 83 svokallaðir hálfir dagar. Á fyrstu 11 mánuðum þessa árs hafa 36 dagar fallið niður í flugi og 45 hálfir dagar.

Af þessu má sjá, frú forseti, að flugsamgöngur eru ekki tryggar til Eyja af veðurfarsástæðum. Menn verða enn um hríð að reiða sig á sjóleiðina, þjóðbrautina til Vestmannaeyja. Fólk og fyrirtæki reiða sig á siglingar Herjólfs. Almenningur sem þarf að leita sérfræðiþjónustu, svo sem læknishjálpar, upp á land þarf oftar en ekki að verja til þess a.m.k. tveimur dögum með tilheyrandi vinnutapi og kostnaði vegna þess að Herjólfur fer aðeins eina ferð á dag þrjá virka daga vikunnar.

Sjávarútvegur er uppistaða atvinnulífsins. Þar skiptir mestu að koma framleiðslunni á markað þegar markaðurinn kallar. Fyrirtæki í sjávarútvegi eiga þess ekki kost að koma vörum sínum af sér til útflutnings, m.a. vegna plássleysis í Herjólfi og takmarkaðra ferða. Þannig mun þurfa að flytja a.m.k. 10 40 feta gáma frá Eyjum vikulega en Herjólfur getur ekki boðið nema takmarkað pláss daglega til viðbótar því sem áður var í stað þeirra flutninga er Eimskip annaðist áður.

Auknir vöruflutningar með Herjólfi munu þar að auki takmarka enn frekar möguleika Vestmanneyinga eða annarra ferðamanna til að flytja bíla sína og er ástandið þó þröngt fyrir.

Frú forseti. Svo sem sjá má af þessari lýsingu er óhætt að halda því fram að Vestmanneyingar sitji ekki við sama borð og aðrir landsmenn, hvorki íbúar þar né fyrirtæki. Ég minni á að um er að ræða samfélag með á fimmta þúsund íbúa. Lágmarkslausn á samgönguvanda þeirra til skemmri tíma hlýtur að vera tvær ferðir Herjólfs á dag nema laugardaga, allan ársins hring.

Vitaskuld ber að fagna því samkomulagi sem náðist nýlega milli Vegagerðarinnar og Vestmannaeyjabæjar en það dugar þó engan veginn til. Yfir vetrarmánuði standa enn eftir þrír virkir dagar vikunnar þar sem aðeins er um eina ferð á dag að ræða en æpandi þörf er á frekari samgöngum.

Nýtt útboð á Herjólfi stendur nú fyrir dyrum. Þar munu væntanlega allar forsendur verða endurskoðaðar en í ljósi þess að Eimskip er hætt að sigla með vörur til og frá Vestmannaeyjum er aðkallandi að bæta þeirri þjónustu við samfélagið í Vestmannaeyjum. Það er þjóðvegurinn til Eyja og ríkisvaldið ber skyldur gagnvart samfélaginu þar.

Ég leyfi mér því, frú forseti, að spyrja hæstv. samgönguráðherra hvort hann sjái fyrir sér að hin aðkallandi lausn á samgöngum við Vestmannaeyjar verði tekin til alvarlegrar endurskoðunar þegar í stað í ljósi hinna gjörbreyttu aðstæðna.