131. löggjafarþing — 53. fundur,  8. des. 2004.

Skráning og mat fasteigna.

335. mál
[18:05]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal) (S) (andsvar):

Herra forseti. Mér er mjög ljúft að svara þessu. Fram eru komnar upplýsingar um að sú gífurlega hækkun á fasteignaverði sem hefur verið undanfarið kunni að hækka þennan skatt. Svo er ekki. Hækkun á fasteignaverði hefur áhrif á fasteignamatið árlega og þar með á lóðir og annað slíkt sem er andlag fasteignamatsins en hefur ekki áhrif á brunabótamatið, sem er í raun byggingarkostnaður fasteignarinnar, þ.e. húsa, íbúða en ekki lóða. Þessi skattur er ekki lagður á lóðir. Hann er innheimtur með brunabótaiðgjaldi tryggingafélaganna. Það kerfi hefur verið til staðar og þótti ódýrt til að ná umræddum tekjum inn. Þetta mun því ekki hækka í takt við þá miklu hækkun sem er á fasteignamarkaði. Gjaldið mun hækka eins og byggingarvísitalan.