131. löggjafarþing — 53. fundur,  8. des. 2004.

Söfnunarsjóður lífeyrisréttinda.

299. mál
[18:11]

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir minnihlutaáliti sem sett var fram af hálfu hv. þm. Álfheiðar Ingadóttur sem sat í efnahags- og viðskiptanefnd þegar þetta mál var afgreitt. Hún getur ekki stutt frumvarpið í óbreyttri mynd. Við leggjum til að það verði skoðað á milli umræðna hvort hægt verður að koma til móts við þau sjónarmið sem hún talaði fyrir.

Í frumvarpinu er lagt til annars vegar að stjórnarmönnum Söfnunarsjóðs lífeyrisréttinda verði fækkað um einn og hins vegar að innheimtuþóknun sem sjóðum ber að gera kröfu um vegna ógreiddra iðgjalda verði hækkuð.

Við leggjumst ekki gegn hinu síðarnefnda, þ.e. að innheimtuþóknunin verði hækkuð en höfum miklar efasemdir um fækkun stjórnarmanna. Þar vísum við í álit sem hafa borist frá Landssamtökum lífeyrissjóða þar sem fjallað er um aðkomu fulltrúa opinberra starfsmanna að sjóðnum. Samkvæmt þessum tillögum hættir Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins að tilnefna fulltrúa í sjóðinn en í álitsgerð Landssamtaka lífeyrissjóða segir m.a., með leyfi forseta:

„Hins vegar er jafnframt vakin athygli á því að ekki er óeðlilegt að opinberir starfsmenn tilnefni sérstaklega fulltrúa í stjórn sjóðsins, eins og verið hefur, enda eiga fjölmargir lífeyrisstarfsmenn lífeyrisréttindi í sjóðnum.“

Í álitsgerð LSR er einnig bent á þetta atriði. Þar segir m.a., með leyfi forseta:

„Það má því líta svo á að þeir stjórnarmenn sem LSR hefur tilnefnt til setu í stjórn Söfnunarsjóðs lífeyrisréttinda hafi í raun verið fulltrúar opinberra starfsmanna í stjórn sjóðsins.“

Í álitsgerð frá BSRB var einnig er bent á sama atriði. En í álitsgerð samtakanna, í niðurlagi hennar, með leyfi forseta, segir:

„Lífeyrissjóðirnir fara með mikla fjármuni og hvílir mikil ábyrgð á þeirra herðum. Þegar fækkað er í stjórnum lífeyrissjóða eins og hér er lagt til ber að hafa þetta í huga. Einnig hitt að stjórnarmenn hafi mismunandi félagslegan bakgrunn og þar með tengsl við sjóðfélaga. Æskilegt er að í stjórn lífeyrissjóða sitji fleiri en færri og bakgrunnur stjórnarmanna sé fjölbreyttur.“

Ég vil taka undir þessi sjónarmið. Ég hvet eindregið til þess að skoðað verði á milli umræðna hvort samkomulag geti náðst um að koma til móts við þær ábendingar sem ég hef vikið að.