131. löggjafarþing — 53. fundur,  8. des. 2004.

Lánasjóður íslenskra námsmanna.

330. mál
[21:05]

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Þetta mál er alls ekki flókið. Það er í raun sáraeinfalt. Með ákvæðinu er ekki verið að færa lægra settu stjórnvaldi vald umfram það sem hærra sett stjórnvald hefur. Neðra stjórnvaldið, þ.e. stjórn LÍN, kemur aldrei til með að geta tekið ákvarðanir málskotsnefndarinnar í gíslingu. Í ákvæðinu segir einfaldlega að stjórn Lánasjóðs íslenskra námsmanna geti fyrir hönd sjóðsins krafist þess að réttaráhrifum verði frestað. Það er málskotsnefndin sem tekur ákvörðun um það hvort til slíkrar frestunar kemur ef hún telur ástæðu til þess. Stjórn Lánasjóðs íslenskra námsmanna tekur ekki þá ákvörðun heldur þarf hið hærra setta stjórnvald að telja ástæðu til að fresta réttaráhrifum úrskurðarins.

Af hverju skyldi þessi regla vera sett inn? Jú, það er vegna þess að ákvarðanir málskotsnefndarinnar geta skipt verulegu fjárhagslegu máli fyrir sjóðinn. Stjórn sjóðsins á að hafa eitthvað um það að segja ef úrskurður nefndarinnar getur haft veruleg fjárhagsleg áhrif á afkomu hans og stöðu hans. Þetta er því alveg kristaltært og ekki gripið fram fyrir hendur æðra setts stjórnvalds. Lægra stjórnvaldinu er hins vegar gefinn umþóttunartími og möguleiki á að óska eftir því við æðra sett stjórnvald að réttaráhrifunum verði frestað. En það er alltaf endanleg ákvörðun hins æðra stjórnvalds hvort við þeirri ósk verði orðið eða ekki.

Það er ekki verið að taka fram fyrir hendurnar á einum eða neinum í þessu máli. Ég bendi enn og aftur á að þetta ákvæði á sér fordæmi í almannatryggingalögum.