131. löggjafarþing — 53. fundur,  8. des. 2004.

Háskóli Íslands.

348. mál
[22:44]

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Eins og hv. þingmaður bendir réttilega á er alsiða að þingmenn séu með fyrirvara við ákveðin mál. En þá er það venjulega efnislegur fyrirvari sem þingmaðurinn orðar ef ekki í nefndaráliti þá í öllu falli í ræðu sinni. Fyrirvarinn getur lotið að ákveðnum greinum og fyrirvarinn getur verið með þeim hætti að þingmaðurinn áskilji sér rétt til að sitja hjá við ákveðnar greinar frumvarps eða jafnvel flytja breytingartillögur og jafnvel vera á móti ákveðnum greinum í frumvarpi sem verið er að afgreiða. Fyrirvarinn þarf því fyrst og síðast að vera efnislegur. Hv. þingmaður hefur ekki efnislegan fyrirvara við þetta mál og það tel ég ámælisvert. Hvort það sé einhver lapsus eða mistök hjá lögfræðingum nefndasviðsins eða stjórn þingsins að hleypa þessu máli svona í gegn skal ósagt látið. Ég skal ekki dæma um það. En þetta er ekki í samræmi við það sem mér hefur verið kennt um þingstörfin og möguleika þingmanna á að setja fyrirvara við mál.