131. löggjafarþing — 53. fundur,  9. des. 2004.

Háskóli Íslands.

348. mál
[00:31]

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég sá ástæðu til að víkja í máli mínu að orðum hv. þm. Kolbrúnar Halldórsdóttur vegna þess að hún nefndi oftar en einu sinni í ræðu sinni skólagjaldastefnu Sjálfstæðisflokksins. Ég vildi benda henni á að annar stjórnmálaflokkur í landinu hefur gengið harðar fram í að fjalla um skólagjöld og taka þau upp í stefnuskrá sína. Það er náttúrlega Samfylkingin og fyrst og fremst Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, varaformaður Samfylkingarinnar, ásamt meðreiðar-, ekki sveinum heldur meyjum sínum, hv. þingmönnum Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur og Bryndísi Hlöðversdóttur.

Mér fannst ástæða til að geta þessa vegna orða hv. þingmanns um skólagjaldastefnu Sjálfstæðisflokksins. Sú hugtakanotkun byggir á ákveðnum misskilningi sem ég taldi mig hafa leiðrétt með beinum tilvitnunum í orð varaformanns Samfylkingarinnar um hugmyndir frá framtíðarhópi þess flokks.

Varðandi þjónustugjaldið og þann kostnað sem gjaldinu er ætlað að mæta þá er það tiltekið í frumvarpinu, og það er alveg ljóst að þar eru margir liðir. Það er jafnframt alveg rétt hjá hv. þingmanni að á 120. löggjafarþingi, þegar þessi mál voru til umfjöllunar og frumvarp til sambærilegrar gjaldtöku var til umræðu, ætli það hafi ekki verið í kringum árið 1991, voru málin ekki í jafngóðum farvegi og nú. Það verður að játast. Það var ekki góð lagasetning á þeim tíma, hver sem að þeirri lagasetningu stóð, að tilgreina ekki nákvæmlega þá kostnaðarliði sem gjaldinu var ætlað að mæta. En þetta er klárlega þjónustugjald.