131. löggjafarþing — 54. fundur,  9. des. 2004.

Greiðsla kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.

320. mál
[17:58]

Ögmundur Jónasson (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs styður efnisatriði þessa frumvarps, en ég skrifaði undir nefndarálit með fyrirvara og vil gera grein fyrir í hverju hann liggur.

Í fyrsta lagi beinist gagnrýni mín að vinnubrögðum í tengslum við málið. Það er mjög seint fram komið. Í tengslum við frumvarpið kemur fram skýrsla frá Fjármálaeftirlitinu sem hefði þurft að fá góða og rækilega efnislega umfjöllun en vegna þess hve málið er seint fram komið gat hún ekki orðið.

Í öðru lagi hefðum við talið eðlilegt að þingmál Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs sem lýtur að stjórnsýslulegri stöðu Fjármálaeftirlitsins hefði verið tekið til umfjöllunar í tengslum við þetta mál. Við teljum ástæðu til að skoða tengslin á milli Fjármálaeftirlitsins annars vegar, hin pólitísku tengsl á milli þeirrar stofnunar annars vegar, og viðskiptaráðuneytisins hins vegar. Við höfum verið með hugmyndir um að færa stjórn þeirrar stofnunar undir Alþingi og að því lýtur okkar mál, að skoða hin pólitísku tengsl sem þarna eru á milli.