131. löggjafarþing — 54. fundur,  9. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[21:28]

Lúðvík Bergvinsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef áður heyrt hluta af þeirri ræðu sem var flutt áðan og ekki ástæða til þess að orðlengja hana mikið. Þó er full ástæða til þess að nefna það af því hv. þingmaður fór yfir hugmyndir Samfylkingarinnar í fjárlögum sem hún lagði fram, en þar var hugmyndafræðin sú að skila a.m.k. milljarði meira í afgang en ríkisstjórnin. Það er því er óhætt að telja upp það sem menn leggja til í útgjöld. Við hefðum getað lagt til 306 milljarða eða svo og talið það upp og talið að frekar óábyrgt væri að gera það með þessum hætti.

Ég ætla ekkert að fara í ræðu hv. þingmanns, vegna þess að hún bætti litlu við umræðuna. Umræðan hefur talsvert verið af hálfu stjórnarandstöðunnar um nauðsyn þess að lækka virðisauka á matvæli. Hv. ríkisstjórn og fulltrúar hennar hafa lýst alveg óheyrilegri hamingju með þá aðferðafræði sem þeir ætla að leggja í hann. (RG: Hátíðisdagur.) Hátíðisdagur, dásamlegt, allt yndislegt. (Gripið fram í: Gleðileg jól.) Ég vil því spyrja hv. þingmann: Hvað gerði það að verkum að í miðri umræðu um hamingjuna, eins og hv. þm. Pétur H. Blöndal orðaði það ágætlega, flýja menn af hólmi? Þá setja menn á fót nefnd til þess að ræða lækkun á virðisauka, í miðri umræðu þegar menn fara á ystu nöf um aðhald í ríkisfjármálum, um einkaneysluna, koma þeir á fót nefnd sem kynnt var af hálfu fjármálaráðherra í fréttum í kvöld sem gengur út á að ræða lækkun á virðisaukanum. Hvar er öll hamingjan? Hvar er dásemdin? Eru menn á flótta frá eigin hugmyndum þegar dregið hefur verið fram að menn hafa fjármagnað skattalækkanirnar með mestu skattahækkunum sem þekkjast?