131. löggjafarþing — 54. fundur,  9. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[22:45]

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla að fara í stuttu máli yfir helstu atriði sem vikið hefur verið að í umræðunni um skattalækkunarmál, þar sem það virðist vefjast fyrir mörgum hv. þingmönnum hvort í raun og veru sé verið að lækka skatta eða ekki. Það er verið að lækka tekjuskatt um 4%. (Gripið fram í.) Virðisaukaskattsþrepið hefur reyndar verið lækkað áður, úr 14% niður í 7%, ég ætla ekki að fara í of löngu máli yfir það sem áður hefur verið gert um hátekjuskattinn, erfðafjárskattinn eða annað þess háttar, en nú er verið að lækka tekjuskatt einstaklinga úr 25,75 niður í 21,75. Þetta verður gert á árunum fram til 2007.

Í öðru lagi er verið að afnema eignarskatt einstaklinga og fyrirtækja, það verður gert árið 2006. Það er verið að hækka barnabætur um 2.400 milljónir og það er verið að lækka skatta.

Þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa komið hingað upp og bent á þá staðreynd að á þinginu hafa verið lögð fram frumvörp um að færa ýmis opinber gjöld upp í humátt á eftir verðlaginu. Því er haldið fram kinnroðalaust að verið sé að hækka skatta. Nú þykjast hv. þingmenn sjá tilefni til að fara í andsvör, og ég fagna því vegna þess að ég hef athugasemdir við þennan málflutning og til að byrja með vil ég benda á þá staðreynd að viðkomandi gjöld eru ekki látin fylgja verðlagi að fullu, það er meginlínan. (Gripið fram í.)

Í öðru lagi hlýtur maður að velta fyrir sér þegar þessi mál eru rædd hvernig hv. þingmönnum litist á að sú stefna væri tekin upp, að í stað þess að hækka gjöldin ár frá ári eða á nokkurra ára fresti væru þau einfaldlega látin miðast við ákveðna hlutfallstölu, eins og á við um mjög mörg opinber gjöld. Vildu menn hugsanlega fara að binda þetta fast í lögunum, við verðlagið? Eða er það skattastefna þessara flokka að skattalækkunum verði náð fram til lengri tíma með því að láta opinber gjöld í friði? Er það sú skattastefna sem verið er að kynna, að opinber gjöld sem eru bundin fastri krónutölu verði látin i friði ár eftir ár eftir ár? Fyrirtæki sem ekki hækkar vörur sínar til samræmis við verðlagshækkanir fer á endanum á hausinn, það er bara þannig.

Skattastefna ríkisstjórnarinnar birtist í því að viðhalda tekjustofnum sem þarna er um að ræða og gefa aðra eftir. Það er ósköp skýrt, þetta eru hreinar línur. Um ákveðnar tekjur segir ríkið: Við ætlum að viðhalda þessum stofnum, og þeim verður ekki viðhaldið með öðrum hætti en þeim að láta viðkomandi gjöld koma að minnsta kosti í humátt á eftir hækkunum verðlagsins.

Ég vek athygli á að því er ekki einu sinni haldið fram að verið sé að hækka gjöldin að fullu til samræmis við verðlag, vegna þess að staðreyndin er ekki sú. Við getum tekið ýmis gjöld sem dæmi í því samhengi. Áfengisgjaldið er vinsælt í umræðunni, til að mynda á sterka víninu, og bent á að þar sé verið að hækka skatt. Á móti get ég sagt: Ætla menn þá að samþykkja að við höfum verið að lækka skatt með því að hækka ekki áfengisgjaldið á léttvíni og bjór? Eða er það ekki skattalækkun að láta krónutöluna lifa ár eftir ár án þess að endurskoða hana þegar verðlagið hækkar? Er það ekki skattalækkun? Menn verða að gera upp á milli kostanna hér. Annaðhvort staðfesta menn að það sé skattalækkun að láta krónutöluna halda sér þegar verðlagið stígur jafnt og þétt ár frá ári eða koma með einhverjar útskýringar á því hvernig ríkið eigi að viðhalda þeim skattstofnum sem það hefur, þ.e. þeim sköttum sem ekki stendur til að lækka.

Þegar betur er að gáð sést hve málefnafátæktin í þessari gagnrýni er algjör, því þetta blasir við. Það hefur líka einkennt alla gagnrýni á frumvarpið að mönnum stendur nákvæmlega á sama um staðreyndir. Menn koma hér upp og fara algjörlega blygðunarlaust með rangt mál. Það er ekki yfirlýst, en er greinilega undirliggjandi markmið í umræðunni og í áróðrinum sem stjórnarandstaðan heldur uppi, að slá ryki í augu fólks, það blasir við þegar málflutningurinn er skoðaður.

Ég fagna því að hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar sem hafa verið virkir í umræðunni skuli ætla að koma upp í andsvör og ég vonast eftir að við getum aðeins tekið á þessu máli, hvort það séu skattalækkanir að láta krónutöluna standa óbreytta ár eftir ár eftir ár, eins og við höfum gert með léttvín og bjór, og hvaða áhrif það hafi á hlutfall ríkisins af útsöluverði vörunnar. Jú, það hefur þau áhrif að hlutfall ríkisins á útsöluverðinu er sífellt að lækka og þetta köllum við skattalækkanir. (Gripið fram í: Ekki ef varan hækkaði.) Ef varan hækkar í samræmi við aðrar verðlagshækkanir þá köllum við þetta skattalækkanir. Ég kalla þetta skattalækkanir, þetta eru skattalækkanir. Hins vegar þegar gjöldin eru látin halda sér í samræmi við verðlag þá er ekki verið að auka skatta heldur er verið að halda þeim óbreyttum. (Gripið fram í: En ef persónuafslátturinn heldur ekki verði?)

Ég var í andsvari við hv. þm. Kristján L. Möller og við komum einmitt inn á það sem hér er kallað fram í, þ.e. persónuafsláttinn. Ég fékk auðvitað engin svör frá hv. þingmanni frekar en aðrir sem fóru upp í andsvör við hann, en það er þannig með persónuafsláttinn — sem er auðvitað grunnurinn að frítekjumarkinu hér á landi og er auðvitað tæki sem við notum — að hin félagslega jöfnun í skattkerfinu birtist í persónuafslættinum. Ég ætla að fara aðeins yfir það á eftir hvernig skattbyrðin er mismunandi eftir því hversu háar tekjurnar eru. Þar er sú félagslega jöfnun sem menn tala um að sé ekki til staðar í umræðunni sem fer fram í dag.

Það er staðreynd varðandi frítekjumarkið að það er hvergi hærra, menn geta ekki komið hingað upp í ræðustól og bent á eitt einasta dæmi í heiminum um ríki (Gripið fram í.) sem skilur eftir fleiri krónur af fyrsta hundraðþúsundkallinum en gert er hér á Íslandi, ekki eitt einasta dæmi í heiminum. (Gripið fram í: Jú, jú, jú …) Ég spyr: Hvar er frítekjumarkið hærra en á Íslandi? Og ég fagna því ef menn geta komið með svar, vegna þess að svarið verður: Hvergi. Þannig er það. (Gripið fram í.) Engu að síður koma menn hér upp og býsnast yfir því, og kaupa sér eflaust einhverja til liðs við sig með þeim málflutningi, að mikið réttlætismál sé að hækka þetta. En það er ekki farið yfir hvað kosti að hækka frítekjumarkið. Hverjar þúsund krónur þar kosta fleiri hundruð milljónir.

Hver er stefna þeirra sem gagnrýna gjaldahækkanir ríkisstjórnarflokkanna? Er stefnan sú að láta gjöldin fylgja verðbólgu eða birtist skattastefna þessara flokka bara í því að nú ætlum við að frysta öll slík gjöld í krónutölu, og láta þau bara vera næstu tíu árin? Er það skattalækkunarstefnan sem er verið að kynna hér?

Aðeins um umræðuna sem nú hefur farið fram. Ég hefði viljað að umræðan um efnahagsástandið hefði tekið aðeins lengri tíma af deginum en raunin hefur orðið. Ég ætla aðeins að byrja á að rifja upp hvað segir í fjárlagafrumvarpinu um efnahagsmálin. Í því sambandi er ágætt að rifja upp að nú um nokkurt skeið, allt frá því að fyrir lá hvernig staðið yrði að stóriðjuframkvæmdum og hvernig þær mundu raðast niður árin sem fram undan eru, hafa allir verið sammála um að gæta þurfi aðhalds í útgjöldum ríkisins og að fram undan séu krefjandi verkefni í hagstjórninni. Þetta hafa menn verið sammála um.

Nú koma menn hér upp og segja að vá sé fyrir dyrum. Gengið sé orðið of sterkt, vextirnir hækki hraðar en menn áttu von á. Á sama tíma menn koma og segja að það sé gáleysi af ríkisstjórninni að lækka skatta við þessar aðstæður og svona samandregið eru menn með hálfgerða dómadagsspá fyrir komandi ár.

Í fjárlagafrumvarpinu er farið yfir hvernig aðhaldssöm stefna í ríkisfjármálunum sé ekki aðeins mikilvæg forsenda fyrir stöðugleikanum, fyrir áframhaldandi stöðugleika í efnahagsmálum, heldur einnig að aðhaldssöm stefna í ríkisfjármálum sé forsenda fyrir þeim skattalækkununum sem verið er að kynna. Ég get auðvitað ekki annað en tekið undir með þeim sem benda á þá augljósu staðreynd að gæta þurfi aðhalds í opinberum útgjöldum á næstu árum. Einmitt þess vegna er ein meginforsenda langtímaáætlunarinnar sem hefur verið kynnt í ríkisfjármálunum sú að samneyslan vaxi ekki um meira en 2%. Þetta er ein af grundvallarforsendunum sem við stöndum frammi fyrir.

Þegar ég segi að ég hefði viljað að það hefði farið lengri tími í dag í umræðu um efnahagsmálin er það einmitt um þetta atriði sem ég hefði sérstaklega viljað heyra fleiri sjónarmið. Ég hefði viljað heyra fleiri sjónarmið þeirra sem hafa komið hingað upp og gagnrýnt stefnu ríkisstjórnarflokkanna í efnahagsmálum um hvernig ætti að halda útgjöldunum niðri. Hvar eru tillögur þeirra sem tala um efnahagsmálin og lýsa yfir miklum áhyggjum um það hvernig eigi að halda útgjöldunum í skefjum? Það eru nefnilega sömu aðilarnir sem tala sýknt og heilagt um niðurskurð.

Við skulum taka Samfylkinguna sem dæmi. Þetta er flokkurinn sem kemur hér upp og býsnast yfir svokölluðum niðurskurði í heilbrigðismálunum. Auðvitað sér hver maður sem skoðar það nánar að þeir skipta tugum milljarðarnir sem hafa farið til aukningar í heilbrigðis- og tryggingamálum á undanförnum árum.

Það er alveg sama sagan í menntamálum. Frá árinu 2000 hefur 1 milljarði verið bætt við háskólastigið, ár eftir ár. Þetta er kallað niðurskurður og menn koma upp og fjargviðrast yfir því að stefnt skuli að því að lækka skatta á næstu árum á sama tíma og þeir kynna hugmyndir um hvernig auka eigi útgjöld til menntamála. Málflutningurinn er því þannig að það stangast hvað á annars horn. Það breytir því ekki að ég tek undir með hverjum þeim sem er tilbúinn til þess, í samstarfi við stjórnarflokkana, að tryggja að samneyslan vaxi ekki umfram það sem stefnt er að á næstu árum. Til þess að það geti orðið þarf að gæta aðhalds í útgjöldum hins opinbera, það þarf að gæta að því að launaþróun opinberra starfsmanna fari ekki úr böndunum og það þarf að gæta að því að ekki verði ráðist í framkvæmdir umfram það sem efnahagslífið þolir almennt. Með því verður stöðugleikinn tryggður, með því náum við að halda verðbólgumarkmiðum okkar og með því getur okkur tekist að viðhalda þeirri kaupmáttaraukningu sem hefur verið stöðug undanfarin ár og með því náum við að hámarka ávinninginn af því hagvaxtarskeiði sem fram undan er, en nú er spáð lengsta hagvaxtarskeiði Íslandssögunnar. Það hefur aldrei áður verið spáð lengra hagvaxtarskeiði en því sem fram undan er.

Staðan er því björt og verkefnin í hagstjórnarlegu tilliti vissulega krefjandi og eins og ég hef sagt oftar en einu sinni í máli mínu hefði ég viljað sjá aðeins efnismeiri og dýpri umræðu um nákvæmlega þessi atriði. En hvað gera menn? Menn koma upp og tala um að verið sé að hækka skatta. Þetta minnir á umræðuna sem fram fór fyrir síðustu kosningar. Þá var brellan þessi, þá var skoðað: Hvernig hafa tekjur ríkisins verið að þróast af til að mynda tekjuskattinum? Þá skoðuðu menn: Hverju hefur tekjuskatturinn skilað í ríkissjóð?

Menn fundu auðvitað fljótt út eftir að hafa lagst yfir tölurnar að tekjur ríkisins af tekjuskattinum höfðu vaxið. Þetta var kallað skattahækkun. Þrátt fyrir að á því tímabili sem horft var til hafi prósentan verið að lækka, ríkið var að taka minna til sín af því sem féll til af tekjum fólks var þetta engu að síður kynnt sem skattahækkun. Þó að þetta sé ekki í öllu tilliti sambærilegt við þann málflutning sem kynntur er í kvöld í umræðunni er með sambærilegum hætti engu að síður verið að slá ryki í augu fólks og vekja athygli á eðlilegum uppfærslum ýmissa gjalda sem hafa setið eftir á meðan verðlag hefur hækkað.

Í sambandi við þær tillögur sem liggja frammi hefur mikið verið rætt um það að með þeim sé verið að auka misrétti í þjóðfélaginu. Athyglinni er einkum beint að þeim sem bágust hafa kjörin í því samhengi. Ég vil taka undir með þeim sem í þeirri umræðu segja að mikilvægt sé að öflugur stuðningur sé við þá sem lægst hafa launin, fjölskyldufólk og þá sem eru á lágmarksbótum í almannatryggingakerfinu. Engu að síður tel ég mikilvægt að líta aðeins yfir það hvaða áhrif þær tillögur sem liggja frammi hafa á mánaðartekjur þeirra sem lægst hafa launin.

Ég sæki tölurnar sem ég ætla að kynna hér í vefrit fjármálaráðuneytisins frá 2. desember sl. Einstaklingur með 100 þús. kr. í mánaðartekjur greiðir á árinu 2004 9,5% af launum sínum í tekjuskatt, það er hlutfallið. Á árinu 2007 þegar áhrif frumvarpsins hafa náð fram að ganga verður hlutfallið 3,5%. 3,5% verður tekjuskattshlutfall einstaklings með 100 þús. kr. tekjur. Menn hafa nánast talað þannig í umræðunni í dag að 3,5% séu aðför að láglaunafólki. Tökum hátekjufólkið, sem svo er nefnt í umræðunni, einstaklingur með 500 þús. kr. í mánaðartekjur mun greiða 27,3% af launum sínum í skatt árið 2007. 27,3% á móti 3,5% árið 2007. (Gripið fram í.)

Þarna er félagslega jöfnunin tryggð með skattleysismörkunum og þarna birtist skattstefna ríkisstjórnarinnar í því að hún tekur tillit til þeirra sem lægst hafa launin. Tekjuskattshlutfallið eykst eftir því sem launin eru hærri. Sá sem hefur 500 þús. kr. greiðir í dag 32,9%, en eftir lækkunina 27,3%. (Gripið fram í: Er þetta málsbót?) Það er því með engu móti hægt að halda því fram í tengslum við málið að verið sé að auka misrétti á einn eða annan hátt. Það er einmitt verið að halda í hið félagslega tillit sem verið hefur í kerfinu. Með því að skoða til að mynda tölur af þessu tagi sést að allir munu njóta góðs af þeim tillögum sem verið er að fjalla um, ekki bara hið svokallaða hátekjufólk sem stjórnarandstæðingar hafa gjarnan nefnt í máli sínu.

Hægt er að taka fleiri dæmi. Við segjum þegar við tölum fyrir málinu: Verið er að lækka skatta á venjulegt fólk, venjulegt vinnandi fólk, ungt barnafólk, fólk með meðallaun, en á sama tíma koma tillögurnar sérstaklega til móts við þá sem eldri eru og þá sem lægst hafa launin eins og ég hef nú þegar rakið.

Tökum dæmi um það hversu ósanngjarnar skattalækkanirnar eru í raun og veru. Tökum dæmi af hjónum með tvö börn yngri en sjö ára með 6 millj. kr. samanlagðar árstekjur. Fyrir breytingu greiða hjónin í tekjuskatta og útsvar 1,7 millj. Þau fá í barnabætur 77 þús. kr. og hafi þau stundað háskólanám má gera ráð fyrir því að þau greiði um 285 þús. í endurgreiðslu til LÍN. Eftir breytinguna greiða þau 1,4 millj. í stað 1,7 millj. í tekjuskatt, barnabætur hækka úr 73 þús. upp í 190 þús. og endurgreiðslur til LÍN lækka niður í 225 þús. úr 285 þús. Árleg aukning ráðstöfunartekna hjóna með tvö börn og 6 millj. í heildartekjur yfir árið, — og nú hvet ég stjórnarandstæðinga til þess að leggja við hlustir — er 470 þús. kr. Er þetta hátekjufólkið sem verið er að tala um í umræðunni? Eru þetta milljarðamæringarnir sem menn koma upp í ræðustól og tala um? Eru þetta mennirnir með milljarðana? Nei, þetta er venjulegt fólk, þetta er ungt fólk, fólk með ung börn og meðallaun, ekki meira en það. Ég hygg að þetta dæmi um 6 millj. samtals í árstekjur sé ágætisdæmi um til að mynda meðallaun kennara í grunnskólum sem eru í kringum 250 þús. (Gripið fram í: Fyrir kjarasamninga.) Árleg aukning ráðstöfunartekna 470 þús., 11,4%. (Gripið fram í: Hjá hverjum er þetta segirðu?)

Þetta er lítið dæmi til þess að núllstilla aðeins umræðuna vegna þess að hún var komin út í algjört bull á köflum. (Gripið fram í.)

Annað sem ég vil endilega koma inn á er virðisaukaskatturinn. Í stjórnarsáttmálum hefur tekist samkomulag um að taka virðisaukaskattskerfið til endurskoðunar. Ég hef fylgst með ræðum margra stjórnarandstæðinga, m.a. hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar, sem fylgist nú með umræðunni. Ég hugsaði með mér þegar hann hafði lokið ræðu sinni: Mikið verður gaman að koma í þingsal, vegna þess að nú liggur fyrir að til stendur að taka virðisaukaskattskerfið til endurskoðunar til hagsbóta fyrir almenning, sem getur ekki þýtt annað en að virðisaukaskatturinn verði lækkaður. Mikið rosalega verður gaman, fyrst hv. þingmaður hafði svona eindregna skoðun í málinu og var býsna heitt í hamsi þegar hann fjallaði um hversu mikilvæg kjarabót það yrði þegar skatturinn yrði lækkaður, þegar að því kemur á kjörtímabilinu að fram kemur frumvarp. Þá getum við dansað um þingsalina, ég og hv. þingmaður, og samfagnað málinu vegna þess að ég efast ekki um að hann getur ekki beðið eftir að frumvarpið komi fram. Slíkur hlýtur fögnuðurinn að verða þegar það frumvarp lítur dagsins ljós. Ekki bara hjá hv. þingmanni. Ég get ekki betur séð en meira og minna allur þingsalurinn verði dansandi upp á borðum vegna þess að slík er áherslan sem lögð er á málið af stjórnarandstæðingunum í umræðunni. (Gripið fram í: … fara til Péturs.)

Hv. þingmenn Vinstri grænna hafa mikið blandað sér í umræðuna en framlag þeirra er fyrst og fremst það að glapræði sé að lækka skatta. Mál þeirra snýst fyrst og fremst um það. (JBjarn: Og við höfum rétt fyrir okkur.) Það sé glapræði að lækka skatta, það er langbest að stóri bróðir haldi áfram utan um pyngjuna. Það sé glapræði að láta fólk ráða því hvað það gerir við peningana sem það aflar. Það eru skilaboðin í mjög grófum dráttum. (Gripið fram í.) Það eru breiðu línurnar í skattapólitík Vinstri grænna.

Það dregur aftur fram annað dálítið merkilegt mál, að fyrir síðustu kosningar var mikið kappsmál stjórnarandstöðuflokkanna að hrinda ríkisstjórninni. Það var stóra baráttumálið í síðustu kosningum. (JBjarn: Og er áfram.) Búið var að kynna nýtt forsætisráðherraefni tilvonandi ríkisstjórnar. Koma átti á svokallaðri vinstri stjórn.

Í dag hefur komið í ljós að hefði draumurinn orðið að veruleika væri ekki verið að lækka skatta á Íslandi í dag. (Gripið fram í: Hvað töpuðuð þið mörgum prósentum í kosningunum?) Það er algjörlega klárt að ekki væri verið að lækka skatta í jafnríkum mæli og verið er að kynna ef draumurinn hefði orðið að veruleika. (Gripið fram í.) Ég fagna því sérstaklega fyrir hönd íslensku þjóðarinnar að draumurinn skyldi renna út í sandinn, vegna þess að við höfum fengið að kynnast því eftir kosningar, í þessari umræðu, að Samfylkingin er út um víðan völl í skattapólitík sinni.

Í fyrsta lagi geta menn ekki komið sér saman um einföld prinsippatriði eins og eignarskattinn. Þeir fá sig ekki upp í ræðustól til að fagna því að eignarskatturinn sé að hverfa. (Gripið fram í.) Menn koma sér ekki upp í ræðustól til að fagna jafnsjálfsögðu máli og brottnámi eignarskattsins. Nýjasta innleggið í þá umræðu kom frá hv. þm. Kristjáni L. Möller. Nýjasta innleggið í eignarskattsumræðuna var þetta: Það er ómögulegt að lækka eignarskattinn vegna þess að landsbyggðin fær ekki jafnmikið út úr því og höfuðborgarsvæðið. Þetta er nýjasti vinkillinn. Ég hafði ekki séð þann vinkil fyrir áður. Það er vont að lækka skattinn, sama eignarskattsprósentan gildir í höfuðborginni og annars staðar á landinu en samt er vont að afnema skattinn vegna þess að það gagnast ekki með sama hætti alls staðar því menn greiða misjafnlega mikið í eignarskatt. Ég velti því fyrir mér hvort þetta sé upphafið að einhvers konar tvíþrepaeignarskattsfrumvarpi frá hv. þingmanni.

Hvað má fleira tína til varðandi eignarskattinn? Skoða má á hverjum hann lendir einkum. Hverjir greiða eignarskattinn? Tæpur helmingur þeirra sem greiðir eignarskatt er yfir 60 ára aldursmarkinu. 32% þeirra sem greiða eignarskatt eru ellilífeyrisþegar. Það eru þá skýr skilaboð frá þeim sem koma hingað upp og fá sig ekki til þess að fagna niðurfellingu eignarskattsins til þess hóps sem, — ja, við skulum sjá, ég er með gögn yfir það hversu fjölmennur hópurinn er — 32% þeirra sem greiða skattinn eru yfir 20 þús. einstaklingar. Það eru þá skýr skilaboð til þeirra að þeir hefðu ekki fengið niðurfellingu skattsins ef viðkomandi stjórnmálaöfl hefðu fengið að ráða ferðinni. (Gripið fram í.)

Hverjir lækka skatta? Þeir flokkar sem nú eru við stjórnvölinn, flokkarnir sem sögðust ætla að lækka skatta eru að lækka skatta. Þetta frumvarp er skattalækkunarfrumvarp, ekki skattahækkunarfrumvarp.