131. löggjafarþing — 54. fundur,  10. des. 2004.

Lánasjóður sveitarfélaga.

269. mál
[01:28]

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Örstutt. Lánasjóður sveitarfélaga starfar í dag og lánar út. Þessar breytingar breyta því í sjálfu sér ekki miklu. Í umræðunni um samkeppni sem undanfarið hefur átt sér stað verður hins vegar að líta til þess að Lánasjóður sveitarfélaga er ekki annað en samráð lántakenda á markaði um að ná betri kjörum. Þetta er samráð, nákvæmlega eins og samráð olíufélaganna. Því ber að gjalda varhuga við því, sérstaklega þar sem um er að ræða opinberan aðila sem starfar samkvæmt sérlögum og borgar ekki skatta og skyldur eins og aðrir.

Þrátt fyrir þetta stend ég að nefndarálitinu vegna þess að í því stendur að innan árs skuli stefnt að því að finna út hver eigi þennan sjóð og þá hygg ég að menn vilji gjarnan selja sinn hlut.