131. löggjafarþing — 54. fundur,  10. des. 2004.

Starfskjör launafólks og skyldutrygging lífeyrisréttinda.

321. mál
[01:44]

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er vissulega rétt hjá hv. þingmanni að ýmislegt er að á vinnumarkaðnum. Það eru ýmis vandamál sem menn þurfa að leysa en menn eiga ekki að leysa þau með því að ganga á mannréttindi fólks. Menn þurfa að leysa þau einhvern veginn öðruvísi, ekki með því að fara að semja fyrir annað fólk þó að það vilji það ekki.

Í nefndarálitinu er vísað í það að fólk geti að sjálfsögðu leitað til dómstóla. Dómstólar dæma samkvæmt lögum og við erum að setja í lög að þessir samningar hafi gildi. Það hefur ekkert upp á sig fyrir fólk að fara dómstólaleiðina. Þessir samningar gilda og jafnvel þó að þeir brjóti stjórnarskrána gilda þeir samt. Það er ekki hægt að setja í lög að samningarnir megi ekki brjóta lög en mér virðist samt sem sá samningur sem við ræðum hér geri það. Ég hef miklar efasemdir um þetta frumvarp, tel að það geti haft mjög skaðleg áhrif og það sé kannski verið að lækna einn sjúkdóm með því að búa til annan miklu verri.