131. löggjafarþing — 55. fundur,  10. des. 2004.

Háskóli Íslands.

348. mál
[16:13]

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er hvimleitt þegar hv. þingmenn með mikla og langa þingreynslu leggja manni orð í munn. Það er nokkuð sem ég hefði haldið að menn hefðu átt að læra í gegnum árin.

Ef við ræðum aðeins þessa annars ágætu PISA-könnun sem við eigum að læra af þá er að sjálfsögðu margt mjög athyglisvert í henni. Sumu má fagna. Annað sem við eigum að nota sem veganesti til þess að byggja enn frekar upp okkar skólakerfi þannig að við skorum hærra í næstu PISA-könnun. Svo einfalt er það. En mér finnst hvimleitt að heyra að ekki megi ræða þann kynjamun sem kemur fram í PISA-skýrslunni. Mér fannst hv. þingmaður vera að reyna að fara þá leiðina. En ég ætla ekki að leggja honum þau orð í munn.

Að sjálfsögðu munu skólagjöldin verða rædd hér. Að sjálfsögðu munum við koma að því að ræða kosti skólagjaldanna og galla. Ég vona að það verði með mun málefnalegri hætti en hv. þingmenn hafa verið að mjálma hér fram að þessu.