131. löggjafarþing — 55. fundur,  10. des. 2004.

Háskóli Íslands.

348. mál
[16:15]

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Örstutt um PISA. Að sjálfsögðu erum við farin að rannsaka það, sérstaklega þennan kynjamismun, hverjar ástæður hans eru. Og þó að maður sé ánægður með hlutina á að skoða þá og reyna að láta þá hjálpa okkur til að vísa veginn upp á við í töflunni sem mér finnst hv. þingmaður ekki bera mikinn metnað til þess að fara.

Varðandi skrásetningargjöldin er alveg ljóst að það hefur ekkert breyst varðandi form skrásetningargjaldanna síðan hv. þingmaður var í ríkisstjórn með þeim flokki sem ég er í. Það er enginn munur. Þá var ekki talað um skólagjöld og nú er ekki talað um skólagjöld. (Gripið fram í.) Þetta er skrásetningargjald og ekkert annað, skrásetningargjald sem felur það í sér að það er í rauninni þjónustugjald, gjald sem háskólarnir geta tekið fyrir þjónustu sem þeir veita umfram kennslusamning. Það er mjög auðvelt að greina hvað fer í kennslu því að um það eru sérstakir samningar á milli háskólanna annars vegar og menntamálaráðuneytisins hins vegar.