131. löggjafarþing — 55. fundur,  10. des. 2004.

Háskóli Íslands.

348. mál
[16:44]

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það skiptir engu máli fyrir stúdentinn hvort þetta heitir skrásetningargjald eða skólagjald, þegar upphæðin er orðin svo há er hún farin að bíta. 45 þús. kr. er töluvert mikið fyrir unga manneskju í háskóla. Þess vegna finnst mér að þegar hæstv. ráðherra hefur beitt sér fyrir því og haft frumkvæði að því að hækka gjaldið svona mikið, hvaða nafni sem við kjósum að kalla það, töluvert umfram verðlagsbreytingar beri henni skylda sem menntamálaráðherra, sem á líka að vaka yfir velferð þeirra sem eru manneskjur í háskólum, að beita sér fyrir því að fyrir þessu tiltölulega háa gjaldi verði líka lánað. Mér finnst það ákaflega mikið skæklatog þegar hæstv. ráðherra segir að af því að það er tiltekið form á gjaldinu muni hún ekki beita sér fyrir því, mér finnst það ekki gott svar og mér finnst mjög slæmt að heyra hæstv. ráðherra lýsa því alveg blákalt yfir að hún muni ekki beita sér fyrir því að það sem hún kallar skrásetningargjöld verði lánshæf.

Verst þykir mér þó og á erfiðast með að skilja hið rökræna samhengi þegar hún segir að það sé vegna þess að á upphæðinni sé tiltekið form. Það finnst mér engu máli skipta. Hún getur haldið áfram með nákvæmlega sömu rökum og hún gerði núna að hækka gjaldið og hún getur haldið áfram að kalla það skrásetningargjald en hún ætlar samt sem áður ekki að beita sér fyrir því að það verði lánshæft. Ég skil ekki þessi rök og mér finnst þau slæm og þau eru hvorki í hennar þágu né þeirra sem stunda nám við Háskóla Íslands.