131. löggjafarþing — 55. fundur,  10. des. 2004.

Háskóli Íslands.

348. mál
[17:34]

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Hér er verið að greiða atkvæði um skólagjöld í opinberu háskólana því þessi gjaldtaka er komin langt, langt út yfir það sem eðlilega væri hægt að setja undir eitthvað sem kallast þjónustugjald.

Við hv. þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs mótmælum þessari hækkun. Við mótmælum því að skólagjaldastefna skuli vera orðin svona ríkjandi í opinberu háskólunum og við mótmælum því að skrásetningargjald í háskólana skuli þá ekki einungis fást óskipt inn í rekstur háskólanna heldur er að hluta til enn dreginn frá fjárveitingum háskólanna stór hluti þessa gjalds. Það er á skjön við það sem rektorar háskólanna töldu sig hafa vilyrði um, enda má lesa það í frumvarpstexta að skrásetningargjöldin ættu að koma óskipt til háskólanna. En það er ekki einu sinni hægt að verða við því sem er þó eðlileg krafa opinberu háskólanna sem eru knúnir út á þessa braut vegna fjárskorts og fjárhagssveltis ríkisstjórnarinnar. Ég segi nei.