131. löggjafarþing — 56. fundur,  10. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[21:58]

landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Sagt hefur verið að gömlu vinstri mennirnir sem voru hér á þingi og oft leiðtogar verkalýðshreyfinga, eins og Eðvarð Sigurðsson og fleiri, hafi verið svo heiðarlegir í málflutningi að ríkisstjórn sem þeir voru í andstöðu við tók mark á þeim. Þeir viðurkenndu sannleika. Þess vegna er það svo að auðvitað verður hv. þm. Össur Skarphéðinsson að viðurkenna að efnahagsástand á Íslandi er allt öðruvísi en það var í kreppunni frá 1991–1995. Ég ætla ekki alfarið að kenna Alþýðuflokknum um þá kreppu, það var kreppa og við höfum verið að byggja okkur upp frá henni. Þess vegna blasti það við 1995 þegar við fórum í hin óhreinu bæli Alþýðuflokksins til að taka til, til að viðra sængur og hengja út fatnað og umbreyta íslensku þjóðfélagi, (Gripið fram í.) að þá blasti það í rauninni við í íslenskri pólitík að ganga yrði til verulegrar skattahækkunar á almenning. Ég trúði því þá að við yrðum að hækka tekjuskattinn á launafólki svipað og hann er í Danmörku og Noregi, fara með hann úr 42% upp í 45 eða 48%.

Nú höfum við farið með hann þar sem hann var (Gripið fram í.) hæstur, sérstakur tekjuskattur, úr 47% og erum að keyra hann niður í 34%. Auðvitað sjá allir skynsamir menn og eiga að viðurkenna það að staðreyndin er sú að íslenska samfélagið er allt öðruvísi statt en það var 1995 og íslenska þjóðin hefur það tiltölulega gott. Við eigum að viðurkenna það og vera menn til þess og heiðarlegir í pólitík og segja satt. Þess vegna eiga menn að viðurkenna þær staðreyndir að það er allt annað ástand og þess vegna eru flokkarnir að ljúka þingi 10. desember. Það eru engin vandræði, aldrei fær hv. þm. Össur Skarphéðinsson lengra jólaleyfi vegna þess að efnahagsástand á Íslandi er tiltölulega gott og þessir flokkar, nú undir forustu Halldórs Ásgrímssonar, eru að leysa sín mál með þeim hætti að hér blasa við lífskjarabætur sem skipta miklu máli fyrir íslenska launþega á næstu árum. (Gripið fram í: Á það líka við um bændur?) Bændur líka, eignarskattarnir skipta þá miklu máli.