131. löggjafarþing — 58. fundur,  24. jan. 2005.

Trúnaðarupplýsingar um stríðið í Írak.

[15:13]

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Ég lít svo á að þrátt fyrir æsinginn hafi hæstv. forsætisráðherra verið að lýsa því yfir að hann muni fyrir sitt leyti styðja það að sú tillaga sem við formenn stjórnarandstöðuflokkanna höfum lagt fyrir og er nú á borði utanríkismálanefndar, um rannsókn á aðkomu hans varðandi ákvörðun um stuðning við innrásina í Írak, verði samþykkt og ég fagna því. En tóku hv. þingmenn eftir því að hæstv. forsætisráðherra fór undan í flæmingi? Hann þorði ekki að svara. Ég spurði: Er hann reiðubúinn til að aflétta sjálfur trúnaði af eigin ummælum í utanríkismálanefnd? Ég tiltók sérstaklega fundinn 19. febrúar og það er ekki að ástæðulausu.

Ég spyr aftur: Er hæstv. forsætisráðherra reiðubúinn til að aflétta trúnaði af eigin ummælum? Það þarf ekki annað. Það þarf ekki samþykkt nefndarinnar. Við hvað er hæstv. ráðherra hræddur?