131. löggjafarþing — 59. fundur,  25. jan. 2005.

Tekjuskattur og eignarskattur.

32. mál
[17:59]

Flm. (Guðjón A. Kristjánsson) (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Aðeins örstutt andsvar. Það er algerlega rétt hjá hv. þingmanni að það má finna marga kostnaðarliði sem menn gætu sagt sem svo að væri eðlilegt að fólk fengi að draga frá tekjum vegna þess að þær væru beinlínis tilkomnar vegna þess að fólk ætlaði að stunda atvinnu. Hann nefndi leikskólakostnað foreldra, heimilishjálp og hlífðarföt. Reyndar er það svo að nokkrar stéttir hafa föt, sumar frítt að ég hygg, annað er talið fram sem einhver hlunnindi að hluta til o.s.frv. Reglurnar eru sjálfsagt flóknar að því leyti til. Það sama á við um dæmi sem hv. þingmaður tók um ferðakostnað þegar fyrirtæki leggur til bifreið og það sé metið til hlunninda.

Einmitt það að lögleiða svona reglu, eins og við erum að leggja til, mundi gera það að verkum að þar sem lagt væri til ferðakostnaðar — ég sé ekki að það væri þá verið að meta það til hlunninda. Menn ættu sem sagt rétt á því, svo framarlega sem þeir greiddu eitthvert gjald fyrir að fara með viðkomandi bifreið og það næði þeim upphæðum sem væri frádráttarbært, þá ættu menn rétt á því.

Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni. Við höfum ekki gert í tillögu okkar nokkra tilraun til þess að mismuna mönnum eftir því hvar þeir búa. Það er örugglega rétt að þó nokkur fjöldi fólks í Reykjavík hefur kostnað af því, sem gæti farið upp fyrir 120 þúsund á ári, að sækja atvinnu sína og ætti rétt á frádragi í samræmi við það. Ég tel einmitt að það eigi að vera svo þegar reglur yrðu samræmdar um þetta, að þær mismuni ekki fólki eftir búsetu.