131. löggjafarþing — 60. fundur,  26. jan. 2005.

Gjaldfrjáls leikskóli.

171. mál
[13:47]

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Hér er hreyft mjög mikilvægu máli. Við vitum að fjölskyldurnar í landinu sem eru með börn í leikskóla eru að sama skapi skuldsettustu fjölskyldurnar á Íslandi þannig að sú búbót sem yrði fólgin í því að leikskólagjöld yrðu felld niður er alveg gríðarleg. Fyrir einstæða foreldra er um að ræða allt upp í kvartmilljón á ári, 250 þús., og fyrir hjón um hálfa milljón kr. Það gefur því augaleið að niðurfelling leikskólagjalda yrði mjög mikil búbót fyrir fjölskyldurnar í landinu.

Þarna er um að ræða, eins og kom fram hjá hv. fyrirspyrjanda, 2,4 milljarða í tekjur fyrir ríkissjóð. Þetta eru ekki þannig fjármunir að menn þurfi að setja málið í mjög margar nefndir þannig að ég hefði viljað fá skýrari svör frá hæstv. félagsmálaráðherra um skoðun hans sem félagsmálaráðherra en ekki aðila að Framsóknarflokknum eða samþykktum hans. Ég hefði viljað vita hvað honum finnst og hvort hann vilji gera eitthvað í þessum málum (Forseti hringir.) á meðan hann situr í embætti félagsmálaráðherra.