131. löggjafarþing — 62. fundur,  27. jan. 2005.

Félagsleg undirboð á vinnumarkaði.

[13:41]

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Þegar Landsvirkjun fyrir hönd ríkisstjórnarinnar gekk til samninga við ítalska fyrirtækið Impregilo hlutu menn að vita hvað í vændum var, m.a. að öll fyrirheit ríkisstjórnarinnar um að 80% starfsmanna yrðu Íslendingar voru út í loftið enda varð niðurstaðan öfug, 80% innflutt vinnuafl og 20% innlent. Impregilo sem á sér hrikalega sögu við framkvæmdir í þróunarríkjum Afríku, Suður-Ameríku og víðar var með 40% lægra tilboð en önnur fyrirtæki sem buðu í verkið. Reyndar höfðu flest önnur fyrirtæki hrökklast frá því að bjóða á annað borð þegar upp rann fyrir mönnum hvaða vinnubrögð voru viðhöfð.

Eins og menn rekur eflaust minni til gerðist sá fáheyrði atburður að Landsvirkjun skýrði opinberlega frá kostnaðarmati sínu áður en tilboðsfrestur rann út. Sýnt var að Impregilo ætlaði sér að ná í þennan bita og var ætlaður bitinn. Öllum sem vildu vita var ljóst að Impregilo mundi freista þess að ná kostnaði niður með því að falast eftir ódýrasta vinnuafli í heimi til að vinna verkin og gera allt með eins litlum tilkostnaði og hægt væri. Allt þetta hefur gengið eftir.

Allar götur frá upphafi hefur síðan staðið í stappi við verkalýðshreyfinguna, fyrst um aðbúnað, síðan um starfsréttindi, þá um kjör, einnig um skatta og, hæstv. ráðherra, menn takast ekki einvörðungu á um túlkun kjarasamninga heldur um landslög og brot á landslögum. Og því miður hefur það gerst þótt ekki sé það einhlítt að stofnanir hins opinbera undir forræði ríkisstjórnarinnar hafa stillt sér upp með fyrirtækinu og aðeins drattast af stað eftir að upp hefur verið byggður þrýstingur af hálfu verkalýðshreyfingarinnar. Afleiðingarnar eru síðan farnar að segja til sín eins og kom fram í máli hv. frummælanda, Össurar Skarphéðinssonar, að þetta er farið að menga allt atvinnulíf í landinu og setja svip á þann veruleika sem við búum við og Morgunblaðið lýsir undir fyrirsögninni: Nægt framboð hérlendis af ódýru og ólöglegu vinnuafli. (Forseti hringir.) Á þessu þarf að taka en það verður einvörðungu gert í samráði og nánu samstarfi við íslenska verkalýðshreyfingu.