131. löggjafarþing — 62. fundur,  27. jan. 2005.

Félagsleg undirboð á vinnumarkaði.

[14:00]

Herdís Á. Sæmundardóttir (F):

Herra forseti. Á síðustu árum hefur orðið mikil breyting á íslenskum vinnumarkaði og við horfumst í augu við nýja stöðu hvað varðar atvinnuþátttöku útlendinga hér á landi. Við erum ekki lengur eyland í þessu tilliti, heldur hluti af atvinnumarkaði alls heimsins ef svo má segja og við sækjumst eftir því að gera okkur gildandi í alþjóðasamfélaginu með þeim kostum og göllum sem því fylgir. En þessi nýja staða skapar auðvitað ýmis áður óþekkt vandamál, m.a. í samskiptum þar sem ólíkir menningarheimar og hefðir koma saman. Þetta eru ný úrlausnarefni sem verið er að leysa úr af hálfu hæstv. félagsmálaráðherra, eins og fram hefur komið.

Að sjálfsögðu þarf að virða og fylgja eftir öllum þeim lögum og reglum sem gilda hér á landi í þessu sambandi og tryggja erlendu vinnuafli sömu kjör og aðstæður og við viljum búa, og búum, okkur sjálfum. Það er mikilvægt að taka tillit til þeirra hefða og samskipta sem skapast hafa á íslenskum vinnumarkaði og líka ákaflega mikilvægt að aðilar vinnumarkaðarins, bæði launþegastéttir og vinnuveitendur, séu tilbúnir til að leita lausna á þeim vandamálum sem uppi eru hverju sinni og leita sátta í ágreiningsmálum.