131. löggjafarþing — 62. fundur,  27. jan. 2005.

Skýrsla iðnaðarrh. um framkvæmd raforkulaga.

[15:20]

Einar Már Sigurðarson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er rétt hjá hv. þingmanni að við erum sammála um að hér er afar mikilvægt mál á ferðinni sem bráðliggur á að finna lausn á. En það leysir okkur ekki undan þeirri skyldu að reyna að komast að því hvernig á því stendur að hlutirnir gerast á þennan hátt, þ.e. að það sé upplýst af fjölda aðila á fundum í iðnaðarnefnd að ákveðnir hlutir geti ekki gerst þrátt fyrir að það sé spurt út í það nokkuð nákvæmlega. Síðan kemur það allt saman í ljós sem á fundum nefndarinnar var sagt að mundi ekki gerast. Það er afskaplega mikilvægt að við förum yfir það nákvæmlega hvernig á þessu stendur þannig að menn þurfi ekki að brenna sig á þessu aftur. Það hefði verið miklu eðlilegra að menn hefðu séð þetta fyrir þannig að hægt hefði verið að gera ráð fyrir þeim fjármunum sem þarf til þess að jafna húshitunarkostnaðinn í fjárlögum fyrir þetta ár, að það lægi fyrir

Aðalatriðið sem kom fram hjá hv. þingmanni, sem er ástæðan fyrir því að ég vildi fara í andsvar á þessum tímapunkti, er að hv. þingmaður hefur lýst því yfir að iðnaðarnefnd muni fara vel yfir þetta mál. Ég fagna því alveg sérstaklega og ég get fullyrt það vegna orða hv. þingmanns að ég er alveg sannfærður um að það verður enginn munur á áhuga nefndarmanna hvort sem þeir sitja í ríkisstjórnarmeirihluta eða ekki. Þetta mál er það mikilvægt að það á að vera yfir það hafið hvorum megin menn sitja borðs í því tilviki.