131. löggjafarþing — 62. fundur,  27. jan. 2005.

Skýrsla iðnaðarrh. um framkvæmd raforkulaga.

[15:45]

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að fulltrúar atvinnulífsins á landsbyggðinni byrji fyrst að skjálfa þegar þeir heyra í fréttum að framsóknarmenn hafi lúffað fyrir einhverjum af sjálfstæðismönnum (Landbrh.: Þeir eru ekki að lúffa fyrir neinum.) í ríkisstjórn. Þegar ríkisstjórnin kemur með skattbreytingar eða eitthvað af því tagi sem Framsóknarflokkurinn stendur að þá byrja atvinnuvegirnir á landsbyggðinni ósjálfrátt að skjálfa. (Gripið fram í.)

Við skulum ekki ræða, virðulegi forseti, um flutningskostnaðinn og flutningsskattana. Við skulum ekki ræða þá núna. Við skulum bara sleppa því núna, virðulegi forseti. (Landbrh.: Það er gott. Mundu það.) Grundvallaratriðið er: Getur hæstv. landbúnaðarráðherra gefið þá yfirlýsingu að hann muni tryggja 55–60 millj. kr. á þessu ári og næstu árum til að garðyrkjubændur geti haldið áfram starfsemi sinni? Þetta er fyrsta spurningin og hún er ofureinföld.

Önnur spurning. Af því að ég geri mér ekki vonir um að ná hæstv. landbúnaðarráðherra aftur upp í ræðu um þetta mál þá langar mig að spyrja hæstv. ráðherra: Styður hann þær hugmyndir sem eru uppi á borðinu núna, þ.e. að Landsvirkjun eignist Rafmagnsveitur ríkisins og Orkubú Vestfjarða eins og rætt hefur verið um í ríkisstjórn í sambandi við þessi verk? Spurningin er klár: Styður hæstv. landbúnaðarráðherra það að Landsvirkjun, sem er að ná sér í 2% aukna arðsemi að mati iðnaðarráðherra, eignist Rafmagnsveitur ríkisins og Orkubú Vestfjarða sem sameinist innan Landsvirkjunar?