131. löggjafarþing — 62. fundur,  27. jan. 2005.

Skýrsla iðnaðarrh. um framkvæmd raforkulaga.

[17:23]

iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er dálítið erfitt að fjalla um þetta þegar hv. þingmenn taka út einn ákveðinn þátt og gera hann að málinu í heild. Þegar ég segi að alltaf hafi verið ljóst að verð mundi hækka hjá Hitaveitu Suðurnesja þá er ég að tala um að þeir tóku ekki þátt í kostnaði flutningskerfis nema að litlu leyti áður vegna eigin framleiðslu. Hvernig stóð á því að þeir nutu þeirra sérkjara? Það veit ég ekki en þeir nutu sérkjara og það er ekki hægt, það er ekki löglegt og ekki heldur sanngjarnt. Nú er búið að taka af þeim þessi sérkjör og það þýðir aukinn kostnað. Um það var ég að tala þegar ég talaði um þessi 2,5%.

Ráðuneytið og stjórnvöld geta ekki ráðið verði lengur og hafa ekki gert það upp á síðkastið. Engu að síður hefur þurft að staðfesta gjaldskrár. Þannig að það eru ekki nema ákveðnir þættir sem ég get talað um varðandi verðið í þessum efnum, hvað þá þegar samkeppnin kemst á.

Ég vissi ekki nákvæmlega um það á þessum tíma, þegar rætt var um málið, hvað þessi fyrirtæki mundu krefjast mikillar arðsemi af rekstri sínum. Eins og ég fór yfir áðan þá nota þau tækifærið og hækka arðsemina. Ég var ekkert að gagnrýna það. Þau eru innan markanna og það er bara skiljanlegt. Það skiptir líka máli að það sé ákveðin heimild til arðtöku, m.a. út af afhendingaröryggi, að fyrirtækin hafi a.m.k. svigrúm til að standa í viðhaldi og sjá til að fyrirtækin séu í stakk búin til að veita orku og það þýðir afhendingaröryggi. Hv. þingmaður tók úr samhengi og fór ekki rétt með það sem ég sagði í ræðu minni. Hann fór ekki rétt með það.