131. löggjafarþing — 64. fundur,  1. feb. 2005.

Fjárhagslegur aðskilnaður í rekstri útgerðar og fiskvinnslu.

23. mál
[14:58]

Flm. (Guðjón A. Kristjánsson) (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er nú svolítið annað hvað sá sem hér stendur vildi gera ef hann fengi því ráðið eins og sagt er. Þetta er hins vegar tillaga sem ég vonast til að fái góðar umræður í sjávarútvegsnefnd og að þar leiti menn auðvitað ráða eins og gefur að skilja, margra manna, og síðan komi málið aftur inn í þingið í þeim búningi sem menn telja að það eigi að vera í. Ég spyr hv. þingmann að því hvort hann styðji það ekki að málið fái vegferð út úr sjávarútvegsnefnd og komi hér til umræðu aftur eftir væntanlega góða vinnu nefndarinnar.

Það er auðvitað einnig svo, hæstv. forseti, að ef það verður algjörlega fjárhagslegur og rekstrarlegur aðskilnaður á milli útgerðar og fiskvinnslu, þá er ekkert sem segir að í framtíðinni verði sömu hluthafar beggja megin. Hluthafar gera auðvitað kröfu til þess að viðkomandi atvinnurekstur sé rekinn með hagnaði. Þar af leiðandi fara hagsmunirnir ekkert endilega saman þó að þeir geti farið saman.